Ólafur Jóhann: „Ég legg við hlustir“

Ólafur Jóhann Ólafsson veltir því fyrir sér hvort hann hyggist …
Ólafur Jóhann Ólafsson veltir því fyrir sér hvort hann hyggist bjóða sig fram til forseta Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rithöfundurinn Ólafur Jóhann Ólafsson segir að að margir hafi hvatt sig til þess að lýsa yfir forsetaframboði. Hann segist hins vegar þurfa að velta því fyrir sér hvort hann geti gert eitthvað gagn áður en hann tekur stökkið. Hann segist þakklátur fyrir það hve margir hugsi hlýlega til hans í þessu samhengi. 

„Nei ég er ekki búinn að taka neina ákvörðun,“ segir Ólafur Jóhann spurður hvort hann hyggist sækjast eftir embættinu. „En ég legg við hlustir. Maður verður að gera það þegar þetta er svona mikið í umræðunni,“ segir Ólafur Jóhann. 

Veltir því fyrir sér hvort hann geti gert gagn

„Ég hef aldrei litið svo á að fólk eigi að sækjast eftir embættinu á persónulegum forsendum. Heldur sé það þjóðin sem kalli þá fram sem það hefur áhuga á og það tekur sinn tíma,“ segir Ólafur Jóhann. 

„Maður þarf að velta því upp hvort maður geti gert gagn. Þetta er náttúrlega þjónustuhlutverk og maður þarf að nálgast þetta út frá þeim forsendum,“ segir Ólafur Jóhann.  

Hann segist meðvitaður um að nafn hans hafi verið í umræðunni í tengslum við forsetaembættið en hann hafi valið að „humma“ það fram af sér og sjá hvort þessi umræða myndi ekki lognast út af. Það hefur hins vegar ekki gerst og Ólafur viðurkennir að nú „þyngist róðurinn“ hvað það varðar að humma þetta fram af sér. 

Orð Bubba fari ekki framhjá nokkrum manni

Fyrr í dag var sagt frá því á mbl.is að sjálfur Bubbi Morthens hafi hvatt Ólaf Jóhann til að fara fram. Ólafur segir það ekki hafa farið fram hjá sér. 

„Það fer ekki framhjá neinum þegar Bubbi kveður sér hljóðs. Og ekki mér heldur,“ segir Ólafur Jóhann og hlær við. 

„Auðvitað þykir manni vænt um að fá svona. Að fólk sjái sig knúið til að stíga fram, tjá sig og ýta á eftir manni. Því þyngist róðurinn við að skella skollaeyrum við þessu,“ viðurkennir Ólafur Jóhann.

Fólk reiðubúið að hjálpa til 

Leikjafræðingum hefur verið tíðrætt um að sterkt sé að tilkynna um framboð um og eftir páska. Ólafur Jóhann þvertekur fyrir það að hann hugsi um slíkt.  

„Ef að fólk ákveður að gera þetta þá segir það frá því. Ég þarf nú aðeins að klóra mér í hausnum fyrst,“ segir Ólafur Jóhann.  

Hafa margir hvatt þig til að bjóða þig fram?

„Já, komið að máli við mig,“ segir Ólafur Jóhann og hlær. Vísar hann þar til þekktra orða frambjóðenda fortíðar. 

„Jú, jú, það er ekkert launungarmál að fólk hefur verið að tala við mig,“ bætir hann við.  

Og jafnvel eitthvað fólk sem þegar er tilbúð að leggja sitt lóð á vogarskálarnar við að aðstoða þig við þetta?

„Já, já. Það er ekki annað hægt en að játa því að fólk er að hvetja mig.“

Fólk sem vill hjálpa þér á borði en ekki bara í orði?  

„Já, það er svo.“

Fimm tilkynnt framboð 

Forsetakosningar fara fram í júní. Þegar hafa fimm einstaklingar tilkynnt um framboð. 

Það eru þau Axel Pét­ur Magnús­son, Arn­ar Þór Jóns­son, Ástþór Magnús­son, Tóm­as Logi Hall­gríms­son og Sig­ríður Hrund Pét­urs­dótt­ir til­kynnt um fram­boð. 

Þá sagðist Alma Möller landlæknir velta fyrir sér framboði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert