Verkfall yrði þungt högg

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Sam­taka ferðaþjón­ust­unn­ar.
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Sam­taka ferðaþjón­ust­unn­ar. mbl.is/Hákon

Formaður Sam­taka ferðaþjón­ust­unn­ar segist hafa tilefni til að trúa að samningar náist milli Samtaka atvinnulífsins (SA) og breiðfylkingarinnar áður en Eflingarfólk greiðir atkvæði um verkfall klukkan 16 á morgun.

Breiðfylking stéttarfélaga á vinnumarkaði og SA funduðu með ríkissáttasemjara í dag. Fundurinn gekk vel og hefur annar verið boðaður í Karp­hús­inu klukk­an níu í fyrra­málið.

Efl­ing boðaði í síðustu viku til at­kvæðagreiðslu um vinnu­stöðvun­ hjá ræst­ing­ar­fólki. Ráðgert er að kosn­ing­in hefj­ist klukk­an 16 á morg­un.

Formaður Eflingar sagði við mbl.is fyrr í dag að atkvæðagreiðslunni yrði ekki aflýst – eða allavega ekki fyrr en „við sjá­um al­veg til lands, sem gæti gerst á morgun“.

Mikilvægt að það komi ekki til verkfallsaðgerða

„Við óskum þess að það náist samningar áður en það komi til þessara atkvæðagreiðslu og ég tala nú ekki um verkfallsaðgerðir að hálfu Eflingar,“ segir Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Sam­taka ferðaþjón­ust­unn­ar, sem hefur einnig setið á fundum í Karphúsinu.

„Það er mikilvægt að það komi ekki til þessara aðgerða og ég hef svosem trú á því að það ætti að nást,“ bætir hún við.

Þú segist vona að samningar náist áður en kemur til atkvæðagreðslu. Hún hefst kl. 16 á morgun. Hefurðu trú á því að það náist?

„Ég hef tilefni til að trúa að það náist. Það væri gríðarlegur léttir fyrir okkur öll ef það næðust samningar og við þyrftum ekki að óttast einhvern ófrið á vinnumarkaði,“ svarar Bjarnheiður.

Verkföll á Keflavíkurflugvelli hefðu slæm áhrif

Bjarnheiður telur að verkföll ræstingarfólks yrðu þungt högg fyrir ferðaþjónustuna, sem sé þegar í erfiðri stöðu, helst vegna villandi umfjöllunar erlendra fjölmiðla um jarðhræringar á Reykjanesskaga.

Hún bendir einnig á að fjöldi ferðamanna sem sótti Ísland heim hafi dregist saman í janúar.

Þá segir hún að hugsanleg áform VR um verkföll starfs­fólks í flugaf­greiðslu á Kefla­vík­ur­flug­velli myndu einnig hafa slæm áhrif, að mati Bjarnheiðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert