VR og LÍV funda með SA í Karphúsinu í dag

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, staðfestir í samtali við mbl.is að samninganefnd VR og LÍV fundi með Samtökum atvinnulífsins í Karphúsinu klukkan 15 í dag.

VR og LÍV slitu sig frá samstarfi á vettvangi breiðfylkingar stéttarfélaga í síðustu viku og í kjölfarið mynduðu VR og LÍV sérstaka viðræðunefnd til að halda viðræðunum við Samtök atvinnulífsins áfram.

„Við í samninganefnd VR og LÍV munum funda með Samtökum atvinnulífsins í dag og keyra á okkar vinnu áfram og reyna að landa samningi,“ segir Ragnar Þór í samtali við mbl.is.

Komum ekki á núllpunkti við samningaborðið

Spurður hvort hann sé bjartsýnn fyrir fund dagsins og að samningar náist fljótlega segir Ragnar:

„Það er svo sem erfitt að meta það. Við höfum verið hluti af þessari vinnu sem er verið að byggja á núna þannig að við komum ekki á núllpunkti að samningaborðinu. Það er búið að vinna stærstu málin nánast til lykta en félögin er ólík að samsetningu og ólíkir tekjuhópar. Sérmálin okkar sem við þurfum að klára eru allt önnur en hjá félögum okkar sem eru við það að landa samningi,“ segir Ragnar.

Fram hefur komið í viðtölum við forkólfa breiðfylkingarinnar að góður gangur sé í viðræðunum við SA og stutt sé í að samningar náist.

„Ég held að þetta sé mjög langt komið hjá þeim. Við vorum með sameiginlegar kröfur á sveitarfélögin og stjórnvöld og það er verið að reyna að finna flöt á þeim pakka. Þetta snýst um það að allir séu að taka þátt í þessu verkefni. Okkar nálgun á það hefur ekkert breyst. Við viljum ná niður vöxtum og verðbólgu hratt og vel.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert