„Fjárfesting í þjóðarhag“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist fullviss um að aðkoma stjórnvalda að nýundirrituðum kjarasamningum á almennum markaði muni skipta sköpum fyrir lífskjör á komandi árum.

Ríkið hyggst leggja til 80 milljarða á næstu fjórum árum og snúa aðgerðir stjórnvalda m.a. að hækkun vaxtabóta, víðtækari barnabótum og hækkun hámarks upphæð fæðingarorlofs.

Katrín segir inntak aðgerðanna ekki síst snúa að barnafólki. Spurð um aðhaldskröfur til að mæta þessum auknu útgjöldum þá segir Katrín þetta vera spurningu um forgangsröðun í ríkisfjármálum.

Forgangsröðun í þágu kjarasamninga

„Við ákváðum að forgangsraða aðgerðum í þágu kjarasamninga því við mátum sem svo að það væri gríðarlega þjóðhagslega hagkvæmt að ná friði á vinnumarkaði til lengri tíma til þess að geta náð verðbólgu og vöxtum niðum. Því lít ég svo á að við séum að fjárfesta. Fjárfesting í þjóðarhag,“ segir Katrín.

Liggur fyrir hvaða verkefni ríkisins munu lúta í lægra haldi?

„Það er um margt hægt að gera til að hagræða í ríkisrekstri án þess að þjónusta skerðist,“ segir Katrín.

Vaxtabótaauki árið 2024

Katrín segir að barnabótakerfið muni taka verulegum breytingum en það verður fært nær miðgildi launa. Þá mun ríkið vinna með sveitarfélögunum að gjaldfrjálsum skólamáltíðum.

Eitt af því sem boðað hefur verið er sérstakur vaxtabótaauki á árinu 2024. „Það gerum við bara í ár vegna þess að við viljum taka þau mál til endurskoðunar og við boðum líka að vinna fari við að skoða betur heildrænt stuðning við þau sem eru að kaupa sér húsnæði,“ segir Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert