Forsvaranlegt að halda úti rekstri í Svartsengi

Gestir voru ofan í lóninu þegar rýmingin hófst.
Gestir voru ofan í lóninu þegar rýmingin hófst. mbl.is/Eyþór Árnason

Um 40 mínútur tók að rýma allar starfsstöðvar Bláa lónsins þegar eldgos braust út við Sundhnúkagígaröðina á laugardagskvöld.

Hluti gesta var enn ofan í lóninu þegar rýmingin hófst á níunda tímanum sem var um það leyti er eldsumbrotin hófust.

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu-, þjónustu- og rekstrarsviðs fyrirtækisins, segir rýminguna hafa gengið vel og áfallalaust fyrir sig, að því er hún best veit. Þó fyrirvarinn hafi verið stuttur hafi tekist að rýma með yfirveguðum hætti. 

Forsvarsmenn fyrirtækisins séu ávallt í góðu samstarfi við yfirvöld. Þá sé forsvaranlegt að halda úti rekstri í Svartsengi.

Getur ímyndað sér að gestir hafi fengið í magann

Bláa lónið rekur nokkrar starfsstöðvar í Svartsengi, hótel, heilsulind og veitingastaði, og voru um 700 manns í heildina á svæðinu þegar rýming hófst.

Á myndskeiði sem gestur birti um rætt kvöld má heyra viðvörunarlúðra óma og sjá rauðan bjarma á himni frá eldgosinu.

Spurð hvort aðstæðurnar og rýmingin hafi skotið gestum skelk í bringu segir Helga bæði gesti og starfsfólk hafa að langmestu leyti verið yfirveguð og róleg.

„Maður getur ímyndað sér að gestir fái eðlilega í magann en rýmingin gekk vel,“ ítrekar hún.

Alltaf gert ráð fyrir nægum tíma

Spurð hvort forsvaranlegt sé að halda úti starfsemi Bláa lónsins í Svartsengi í ljósi jarðhræringa á skaganum, segir Helga forsvarsmenn fyrirtækisins ávallt eiga í mjög góðu samstarfi og samtali við yfirvöld um stöðuna hverju sinni.

„Við höfum tímann með okkur, varnargarða, rýmingaráætlanir og hættumat Veðurstofunnar, og á þeim forsendum hefur lögreglustjórinn á Suðurnesjum veitt okkur heimild til að halda starfseminni opinni. Það er alltaf gert ráð fyrir að við höfum nægan tíma.“

Stoppuðu á vegum til að taka myndir

Eins og áður sagði tók um 40 mínútur að rýma Bláa lónið og komust gestir áfallalaust fyrir sig frá Svartsengi.

Vandræði sköpuðust þó þegar ferðamenn voru ítrekað að stoppa úti í vegkanti til að taka myndir af eldsumbrotunum og því magnaða sjónarspili sem þeim fylgja. 

Að sögn Helgu hefur Bláa lónið heyrt af þessu.

„Þetta er vissulega bagalegt, hvort sem það á við um akstur frá Bláa lóninu, eða almennt um Reykjanesbrautina, við þessar aðstæður. Þarna er tækifæri allra til að bæta upplýsingagjöf til ferðamanna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert