Skoða hvort það sé tímabært að leggja nýjan veg

Hraun rann austan við Grindavík.
Hraun rann austan við Grindavík. mbl.is/Hörður Kristleifsson

Verktakar á vegum Verkís kanna nú hvort tímabært sé að leggja nýjan veg þar sem hraun rann yfir Grindavíkurveg og opna vegskörð í varnargarðana að nýju.

Ekki er þó unnt að vinna á svæðinu við Svartsengi þessa stundina sökum gasmengunar frá gosinu.

Áfram er nú unnið að því að reisa varnargarða vestan við Grindavík við fjarskiptastöðina og vegavinnu á svæðinu.

Héldu ökuleið opinni

Tvær hrauntungur runnu úr gossprungunni sem opnaðist á níunda tímanum á laugardagskvöld milli Hagafells og Stóra-Skógfells. Önnur í vestur í átt að Svartsengi og hin í suður í átt að Grindavíkurbæ og sveitabænum Hrauni, austan við Grindavík.

Hátt í 30 verktakar voru að störfum um nóttina á vegum Verkís og þurftu þeir að hafa hraðar hendur enda gosið það kraftmesta sem hefur brotist út á þessu ári.

„Við byrjuðum á að loka vegskörðunum við Svartsengi og svo fórum við að varnargörðunum við Hraun,“ segir Arnar Smári Þorvarðarson, bygg­inga­tækni­fræðing­ur hjá Verkís, spurður út í þá vinnu sem átti sér stað kvöldið sem eldsumbrotin hófust.

Byrjað var á að fylla í vegskarðið þar sem Grindavíkurvegur liggur við Svartsengi. Þar næst héldu verktakarnir til vesturs þar sem Norðurljósavegur klýfur varnargarðana við Bláa lónið. Aðeins var fyllt í helminginn af því skarði og var annarri akreininni haldið opinni.

Að sögn Arnars Smára var það gert í ljósi þess að hraunrennslið hafði hægt verulega á sér og vildu verktakar auk þess halda annarri ökuleiðinni opinni. Vinnuvélar voru þó skildar eftir á svæðinu ef þörf væri á að loka skarðinu að fullu, sem svo reyndist ekki.

„Við vorum tilbúnir að fara í það verkefni og vorum stöðugt á tánum.“

Undirbúningur þegar hafinn

Tvö skörð eru í varnargörðunum norðan við Grindavík. „Þeim hafði verið lokað um morguninn, við vinnum á næturvöktum og dagvöktum og við lokum alltaf þegar við förum í helgarfrí, þeim skörðum. Sá garður L7, sem er norðan við Grindavík, var full virkur,“ segir Arnar Smái.

„Síðan þegar við sjáum að hraunið fer að renna suður, austan við gamla hraunið sem rann í janúar, þar sem hornið á L7-varnargarðinum og L12 mætast, þá förum við að undirbúa það að hækka garðinn við Hraun.“

Undirbúningsvinna við þann varnargarð var þegar hafin. 

„En hann var ekki orðinn fullgerður, þannig við fórum í að hækka hann og loka þá yfir Suðurstrandarveg. Það var það sem við vorum að vinna að um nóttina, keyra efni í hann og vinna hann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert