„Þetta var óþarfi“

Kristrún Frostadóttir á Alþingi.
Kristrún Frostadóttir á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að víða sárni fólki í bændastéttinni umræða um að hækkandi vöruverð og verðbólga sé því að kenna.

Undir dagskrárliðnum störf þingsins sagði hún stjórnarmeirihlutann hljóta að vera hugsi yfir þessu. Eitthvað hefði verulega brugðist.

Kristrún sagði bændur vissulega ekki geta lifað við óbreytt ástand en bætti við að „svo virðist sem eitthvað hafi farið verulega úrskeiðis við vinnslu þessa máls”.

Í stað þess að vinna frumvarpið um búvörulög aftur inni í ráðuneytið til að veita undanþágu til þeirra búgreina sem stæðu höllustum fæti, hefði verið ákveðið að vinna með gallað frumvarp.

„Niðurstaðan er ein allsherjar undanþága sem getur leitt af sér eina stóra afurðastöð fyrir alla kjötvinnslu í landinu óháð búgrein. Þetta var óþarfi,” sagði hún og bætti við að aðferðafræðin hefði gert þeim grikk sem mest þurftu á breytingunum að halda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert