Vita um tilfelli þar sem afleiðingarnar voru alvarlegar

Lögreglan vill vara við neyslu lyfsins.
Lögreglan vill vara við neyslu lyfsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur vitneskju um að minnsta kosti eitt tilfelli þar sem einstaklingur hefur endað á sjúkrahúsi vegna neyslu á ólöglega lyfinu Bromazolam sem virðist nú vera í umferð.

Lögreglan hefur undanfarið lagt hald á lyfið sem hefur fundist í fórum fólks á tvítugs- til þrítugsaldri. 

Töflurnar hafa fundist í pakkningum sem svipa til lyfja sem eru framleidd af löggildum lyfjaframleiðendum. Lyfið hefur þó aldrei verið sett á markað og er einungis framleitt og selt á svörtum markaði. Vill lögregla vara við neyslu þess. 

Þetta segir Jóhannes Sigfússon, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra.

Hann segir ekki liggja fyrir hvort lyfin séu framleidd hér á landi eða erlendis en algengast sé að slík lyf séu flutt inn. 

Sérstaklega hættuleg í blandaðri neyslu

Lögreglan á Norðurlandi eystra greindi á miðvikudag frá því að vísbendingar væru um að framboð á ólöglegum lyfjum væru að aukast á svörtum markaði. Var þar róandi lyfið Bromazolam nefnt sérstaklega. 

Jóhannes segist vita til þess að lyfið hafi komið fyrir í málum hjá öðru lögregluembætti.

Hann segir tvö tilvik hafa komið upp hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra á síðustu dögum þar sem lyfið kom við sögu. Fyrsta tilvikið sé þó frá því í október á síðasta ári. Þar hafi einstaklingur neytt lyfsins ásamt öðrum vímugjöfum og bendir tilfellið til þess að efnin séu sérstaklega hættuleg í blandaðri neyslu.   

Óþverra gæti hafa verið blandað við

Að sögn Jóhannesar eru lyf framleidd á svörtum markaði varhugaverð fyrir margar sakir, til að mynda vegna þess að neytandi veit ekki hvort búið sé að blanda „einhverjum óþverra“ við lyfin eða í hvaða styrkleika lyfin eru.

Aðspurður sagði Jóhannes lögreglu vita um alvarlegar afleiðingar vegna neyslu af Bromazolan. Gat hann staðfest að a.m.k. einn hafi endað á sjúkrahúsi eftir neyslu á lyfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert