BÍ vísar deilunni til ríkissáttasemjara

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður BÍ.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður BÍ. Ljósmynd/Aðsend

Samningaráð Blaðamannafélags Íslands (BÍ) ákvað á föstudag að vísa kjaradeilu sinni við Samtök atvinnulífsins (SA) til ríkissáttasemjara.

Formaður BÍ segir að ekki hafi gengið nógu vel að funda með SA en framkvæmdastjóri SA minnir á það að samtökin þurfi að ganga frá á annað hundrað kjarasamningum.

„Þau samtöl sem við höfum átt við Samtök atvinnulífsins og samninganefnd þeirra hafa einfaldlega leitt okkur að þessari niðurstöðu, að deilunni yrði betur fyrirkomið undir leiðsögn ríkissáttasemjara,“ segir Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður BÍ, í samtali við mbl.is.

Miði betur áfram undir leiðsögn sáttasemjara

Hún segir að eftir síðustu kjarasamninga þá hafi verið ákveðið að gera viðræðuáætlun sem var undirrituð af bæði BÍ og SÁ. „Okkur hefur ekki fundist það ganga nógu vel, að eiga það samtal við SA,“ segir Sigríður Dögg.

Var tilgangur áætlunarinnar að ná að leysa úr ákveðnum atriðum í kjarasamningnum áður en kæmi að formlegum viðræðum.

„Við erum í raun langt á eftir áætlun í okkar samningaviðræðum við þau og teljum kannski að okkur muni miða betur áfram undir leiðsögn ríkissáttasemjara,“ segir Sigríður Dögg.

Sigríður Dögg nefnir að BÍ sé lítið félag og sé því aftarlega í goggunarröðinni hjá SA, sem er búið að standa í ströngu við að semja við almenna vinnumarkaðinn að undanförnu. Ekki liggur fyrir hvenær fyrsti fundur BÍ og SA verður með ríkissáttasemjara.

Á annað hundrað kjarasamninga ókláraðir

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, segir í samtali við mbl.is að þetta sé einn af þeim kjarasamningum sem eigi eftir að ganga frá en segir fullkomlega eðlilegt af hálfu BÍ að vísa deilunni til ríkissáttasemjara.

„Eins og staðan er núna þá erum við búin að ganga frá kjarasamningum við meginþorra stéttarfélaga. Staðreyndin er hins vegar sú að þetta eru á annað hundrað kjarasamningar sem við eigum eftir að klára að ganga frá. Eðli málsins samkvæmt þá getum við ekki fundað með öllum samtímis,“ segir Sigríður Margrét og bætir við:

„Það liggur í hlutarins eðli að þetta mun taka tíma að ganga frá þessu og bara fullkomlega eðlilegt að félög velji að vísa til sáttasemjara.“

Búið að marka launastefnuna

Í tilkynningu til félagsmanna BÍ frá formanni félagsins kemur fram að launastefnan fyrir almenna vinnumarkaðinn hafi verið mörkuð og að samningaráð BÍ sé sammála um að leggja áherslu á að ná að minnsta kosti sambærilegum hækkunum.

Voru það launahækkanir upp á 3,25% á þessu ári, að lágmarki 23.750 krónur og svo 3,5% á ári næstu fjögur árin.

„Samningaráð sér enn fremur sóknarfæri í því að ná fram frekari kjarabótum í þessari lotu,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert