„Hinn skuldandi almúgi sem er að borga niður verðbólguna“

Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna. mbl.is/Sigurður Bogi

Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna segir neytendur vera á milli steins og sleggju í kjölfar ákvörðunar Seðlabankans um að halda stýrivöxtum óbreyttum.

Hann gagnrýnir Seðlabankann fyrir að sýna ekki gott fordæmi og segir marga neytendur í erfiðri stöðu. 

Pen­inga­stefnu­nefnd Seðlabanka Íslands ákvað á miðvikudag að halda vöxt­um bank­ans óbreytt­um. Meg­in­vext­ir bank­ans eru því áfram 9,25%.

Lækningin að drepa sjúklinginn

„Há viðvarandi verðbólga er eitur í okkar beinum en lækningin, sem er háir stýrivextir, eru líka eitur í beinum neytenda.

Þarna verður að vega og meta hvort lækningin sé jafnvel að drepa sjúklinginn – hvort hún sé verri en sjúkdómurinn sjálfur,“ segir Breki. 

Hann segir að Neytendasamtökin hefðu viljað sjá öðrum tækjum beitt í miklu ríkara mæli í baráttunni við verðbólguna. Bæði sé verið að sækja að neytendum þegar kemur að verðbólgu og þegar kemur að háum stýrivöxtum.

„Það er í rauninni hinn skuldandi almúgi sem er að borga niður verðbólguna með háum stýrivöxtum.“

Orð seðlabankastjóra hafi afleiðingar

Þá segir Breki að seðlabankastjóri hafi fyrir um ári síðan talað um að nú væri kúfnum náð. 

„Í kjölfarið fengum við til okkar fólk sem trúði orðum seðlabankastjóra og ætlaði að þreyja þorrann. Fólk sem hélt að þetta væri alveg að klárast og, fyrir orð seðlabankastjóra, freistaðist til að taka smálán og dýr neytendalán,“ segir Breki og bætir við að nú ári seinna sé sama staða sem birtist fólki.

Enn séu stýrivextir tvöfalt og þrefalt hærri en gengur og gerist í nágrannalöndum.  

Stjórnvöld ættu að sýna fordæmi

Breki segir að háir stýrivextir séu ekki endilega besta stýritækið til að eiga við verðbólgu og það megi alveg velta fyrir sér öðrum leiðum. Þá sé það ekkert leyndarmál að aðrar leiðir feli í sér að slá á þenslu útgjalda ríkisins. 

„Við hefðum viljað sjá stjórnvöld og Seðlabankann ganga á undan með góðu fordæmi, draga úr sínum útgjöldum og slá þannig á þensluna.“

Ekkert sé eðlilegt við það að hinn skuldandi almúgi þurfi alltaf að bera hitann og þungann af því sem aflaga fer í efnahagslífinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert