Allt flug undir 3.500 fetum (um einum km) yfir sjávarmáli innan friðlandsins í Látrabjargi verður óheimilt á tímabilinu 1. apríl til 31. ágúst ár hvert. Þar með talið er flug flugvéla, þyrlna, svifdreka, svifvængja og vélknúinna fisa.
Þetta er tillaga að sérreglu um takmörkun á lágflugi yfir bjarginu á varptíma fugla sem birt er í drögum að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlandið í Látrabjargi sem Umhverfisstofnun (UST) hefur lagt fram til kynningar.
Undirbúningur samstarfshóps að áætluninni og útfærslu á flugbanninu hefur staðið yfir í talsverðan tíma með samráði við m.a. Samgöngustofu, Náttúrufræðistofnun Íslands, landeigendur o.fl.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.