Pissaði í garði og hótaði með hníf

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglunni á Vínlandsleið í Grafarholti barst tilkynning um einstakling að kasta af sér þvagi í garði. Hann hótaði öðrum í kjölfarið með hníf. Málið er í rannsókn.

Tilkynning barst um fjóra til sex ferðamenn sem voru hjálparvana við Gróttuvita. Ekki var þörf á frekari aðstoð er lögreglu bar að garði.

Einnig bárust tvær tilkynningar um líkamsárásir í miðbæ Reykjavíkur. Málin eru til rannsóknar.

Sló til lögreglumanns

Í hverfi 108 í Reykjavík var tilkynnt um einstakling sem beðið var um að fjarlægja. Þegar lögreglan reyndi að ræða við hann neitaði hann að gefa upp persónuupplýsingar og sló til lögreglumanns. Hann var því handtekinn en var látinn laus að lokinni skýrslutöku.

Gekk berserksgang 

Annar einstaklingur gekk berserksgang í heimahúsi í hverfi 105 í Reykjavík. Hann var handtekinn og vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gærkvöldi til klukkan 5 í morgun.

Tilkynnt var um þjófnað úr verslun í hverfi 221 í Hafnarfirði og í hverfi 201 í Kópavogi. Bæði málin voru afgreidd á vettvangi. Tilkynnt var um innbrot í heimahús í Breiðholti og er málið í rannsókn.

Í umdæmi lögreglunnar í Kópavogi og Breiðholti var ökumaður handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og fyrir að aka sviptur ökuréttindum. Hann var einnig grunaður um brot á lyfjalögum sem og um vörslu og meðferð ávana- og fíkniefna. Hann var færður á lögreglustöð í sýna- og skýrslutöku.

Bifreið var stöðvuð eftir að lögreglan í Kópavogi og Breiðholti varð vitni að miklum hraða og svigakstri ökumannsins. Sá reyndist án gildra ökuréttinda.

Grunsamlegar mannaferðir

Tvær tilkynningar bárust um grunsamlegar mannaferðir í hverfi 105 í Reykjavík. Annað tilfellið átti sér eðlilegar skýringar en í hinu fundust einstaklingarnir ekki. Einnig var tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir í hverfi 108 sem lögregla sinnti en ekki sást til þeirra sem tilkynnt var um.

Tilkynnt var um hávaða sökum bílaþvotta í Árbænum og fór lögreglan þangað og sinnti málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert