„Sem forstjóri Persónuverndar hefur fólk bara séð mjög afmarkaðan kafla af mér sem einstaklingi og mér fannst vera kominn mjög sterkur tími til þess að ég myndi stíga fram og bjóða íslenskri þjóð mína krafta, þekkingu og reynslu.“
Þetta segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, sem tilkynnti fyrr í dag að hún ætli að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands.
Hún telur sig hafa sterkt erindi í slaginn um Bessastaði og segist koma með reynslu, vit og einlægni í kosningabaráttuna.
Spurð hvort hún hafi hugsað ákvörðunina lengi segir Helga að henni hafi verið beint í þessa átt í einhvern tíma. Þegar í ljós kom að það yrðu forsetaskipti fór hugmyndin um forsetaframboð að þróast fyrir alvöru.
„Þetta er náttúrulega gríðarlega stór ákvörðun. Eftir samræður við fjölskylduna mína og nánustu þá var alveg ljóst að mér fannst ég eiga sterkt erindi,“ segir Helga. Þá bætir hún við að ákvörðunin stjórnist ekki síður af því að hún brenni fyrir hagsmunum íslensku þjóðarinnar.
Hún segir forsetaembættið snúast númer eitt, tvö og þrjú um almannahagsmuni, að vera í fararbroddi fyrir íslenska þjóð, hér heima og að heiman.
„Þetta er það sem allt mitt líf snýst um. Þarna hef ég þekkingu og ég tel mig hafa reynslu og vit en líka þá einlægni sem mér finnst þarna þurfa vera.
Ekki bara einlægnina heldur líka vilja til að hlúa að landsmönnum öllum og hlúa að því sem gerir okkur að þessari sterku þjóð nyrst í atlantshafi. Þessi sköpunarkraftur og drifkraftur.“
Helga segir störf sín sem forstjóri Persónuverndar sýna að hún geti tekið erfiðar ákvarðanir. Þá bætir hún við að hún hafi sýnt dug, þor og þá ákveðni sem þarf til þess að stíga inn og taka þær ákvarðanir sem þarf að taka.
Spurð hverjar áherslur hennar yrðu í embætti forseta segir Helga þær fyrst og fremst vera virðing, festa og stöðugleiki. „Að geta verið til sóma fyrir íslenska þjóð og stíga inn í þau verkefni sem þarf að stíga inn í,“ bætir hún þá við.
Hún segir þjóðina lifa á miklum umbrotatímum og í embætti forseta þurfi að vera einstaklingur sem sé ákveðinn öryggisventill.
Þá nefnir hún að ekki sé sjálfsagt að halda í grunngildi þjóðarinnar á tækniöld, þar kemur sterk inn sérþekking hennar úr Persónuvernd.
Nú hafa ansi margir stigið fram og tilkynnt um framboð sitt til forseta. Spurð hvort það hafi haft einhver áhrif á framboð hennar segir Helga það ekki hafa haft áhrif á ákvörðun hennar.
„Ef ég á að svara algjörlega í einlægni, þá hefur það ekki gert það. Vegna þess að ég stend bara fyrir mínu, ég stend fyrir þeirri þekkingu og reynslu sem ég hef.“
Þá segir Helga reynslu sína víðtæka. Reynsla sem snýr bæði að íslenskri stjórnsýslu, umgjörð formlegra verkefna forseta Íslands og reynsla af alþjóðlegum verkefnum og samskiptum. Einnig sé hún mikil tungumálamanneskja.
Helga hefur óskað eftir því að vera í leyfi frá störfum sem forstjóri Persónuverndar frá og með deginum í dag fram til 1. júní. Staðgengill hennar, Helga Sigríður Þórhallsdóttir, hefur tekið við.
Næstu skref séu að fara af stað í kosningabaráttu þar sem hún ætlar að leggja áherslu á að tryggja að hlúið sé að íslenskum drifkrafti og að þjóðin geti áfram lifað sátt og sæl saman.