Hlustar frekar á foreldra en umferðartudda

Bergur Þorri Benjamínsson, varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og formaður umhverfis- og samgöngunefndar …
Bergur Þorri Benjamínsson, varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Kópavogsbæjar. Samsett mynd

Heildarendurskoðun á hámarkshraða á götum Kópavogs, þar sem hámarkshraðinn er lækkaður í 57 götum úr 50 km/klst niður í 40 eða 30 km/klst, er gerð í nafni umferðaröryggis. Formaður umhverfis- og samgöngunefndar, segir að ef folk telji sig þurfa að keyra á 50 km/klst í íbúðagötum þurfi það að hugsa sinn gang í umferðinni og að öryggi barna og annarra vegfarenda skipti mestu máli.

Eins og fram kemur í auglýsingu í Stjórnartíðindum fyrr í mánuðinum verður hraði á 28 götum færður úr 50 km/klst í 40 km/klst og á 29 götum verður hámarkshraði á götum færður úr 50 km/klst í 30 km/klst. Áfram verða þó nokkrar stofnbrautir með 50 km/klst, en það eru Digra­nes­veg­ur milli Hlíðar­hjalla og Dal­vegs, Vatns­enda­veg­ur og Dal­veg­ur milli Fífu­hvamms­veg­ar,Digra­nes­veg­ar, Fífuhvammsvegur og Nýbýlavegur. Hins vegar verða 265 götur með 30 km/klst hámarkshraða eftir breytingarnar.

Íbúar gagnrýndu hraðakstur

Bergur Þorri Benjamínsson, varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Kópavogsbæjar, segir að upphaf málsins megi rekja til áætlunar frá síðasta kjörtímabili. Íbúar í nokkrum hverfum bæjarins hafi gagnrýnt hraðakstur sérstaklega í íbúðagötum.

Nefnir Bergur að við fjölda gatna sem höfðu 50 km/klst hámarkshraða hafi komið þéttari byggð þar sem lagt er beggja megin götunnar og það sé ávísun á slys með slíkum umferðarhraða. Þá kalli aukin umferð gangandi, hjólandi og annarra fararmáta en bíla á að betur sé gætt að öryggi við slíkar götur. Þá hafi einnig verið vandamál í núverandi götum sem eru með 30 km/klst hámarkshraða að fólk hafi keyrt of hratt. Nefnir hann sem dæmi Baugakór í Kórahverfi, en við götuna eru tveir leikskóla og grunnskóli.

Í stað þess að fara í bútasaum þar sem hámarkshraði á stökum götum eða hverfum væri skoðaður segir Bergur að farið hafi verið í heildarendurskoðun á öllum götum bæjarins og að sú vinna hafi nú staðið yfir í meira en tvö ár.

Við Rjúpnaveg í Kórahverfi er skilti sem gefur til kynna …
Við Rjúpnaveg í Kórahverfi er skilti sem gefur til kynna að hámarkshraði þar sé 50 km/klst. Eftir breytinguna verður hámarkshraði um veginn 30 km/klst. mbl.is/Árni Sæberg

Í íbúðagötum þarftu að keyra varlega“

mbl.is fjallaði um breytinguna á mánudaginn og segir Bergur að strax hafi sprottið upp óánægja hjá einhverjum hópum á samfélagsmiðlum. Segir hann að þar beri meðal annars hæst gagnrýni að verið sé að fara sömu leið og Reykjavík, sem áður hefur farið sambærilega leið. Bergur segir þó mestu máli skipta að þetta sé gert í nafni umferðaröryggis og fólk hafi ekki leyfi til að keyra eins og því sýnist þegar öryggi samborgara sé að veði.

Segir Bergur að sumir hafi komið fram með gífuryrði og stæla vegna þessara breytinga en við þá vilji hann segja: „Ef fólk er ósátt þá þarf það að skoða sinn gang í umferðinni. Skilaboðin eru þessi: Í íbúðagötum þarftu að keyra varlega.“

„Ég vil frekar hlusta á foreldra sem hafa áhyggjur af öryggi barna sinna en þá sem vilja tuddast í umferðinni,“ bætir Bergur við. Bendir hann á að fylgt hafi verið tillögum ráðgjafa og að allir pólitískir flokkar hafi verið sammála þessum aðgerðum í gegnum allt ferlið.

Nýbýlavegur og Fífuhvammsvegur áfram óbreyttir

Í grunninn má segja að hámarkshraði sé 30 km/klst í öllum íbúðagötum og flestum iðnaðargötum bæjarins eftir breytinguna, 40 km/klst í svokölluðum safngötum og 50 km/klst í örfáum stofnbrautum, bæði sem eru á forræði bæjarins og Vegagerðarinnar. Í auglýsingunni sem greint var frá í gær var t.d. ekki minnst á Nýbýlaveg, en hann er á forræði Vegagerðarinnar og þar verður hámarkshraðinn óbreyttur. Einnig vantaði þar inn Fífuhvammsveg, sem er á forræði Kópavogs, en Bergur segir að þar verði óbreyttur 50 km/klst hámarkshraði.

Bergur bendir jafnframt á að ekki sé um það miklar vegalengdir að ræða og þegar áhrifin í tímalengd séu reiknaðar sé það oftast talið í sekúndum.

Einhverjar götur verða endurhannaðar

Næsta verkefni eftir auglýsinguna er að setja upp skilti og merkingar með nýju hraðatakmörkunum, en Bergur segir að einnig verði verkefni til næstu ára að endurhanna einhverjar götur þar sem hámarkshraðinn var lækkaður með það að markmiði að bílstjórar upplifi þær ekki sem stofnbrautir. Það sé meðal annars hægt með því að breikka gangstéttir og með að fara í ýmsar aðrar aðgerðir.

Sveitarfélög mega ekki sjálf hafa hraðaeftirlit, slíkt er aðeins á höndum lögreglu, en Bergur segir að sveitarfélög geti sett upp áminningar um hámarkshraða og gert ýmislegt í hönnun sem breyti upplifun vegfarenda og það verði gert.

Að lokum ítrekar Bergur að hann voni innilega að þau sjónarmið verði ofan á í þessari umræðu að mikilvægast sé að koma í veg fyrir slys á yngsta fólkinu sem og öðrum vegfarendum og að hann telji þetta mikilvægt skref í þeirri baráttu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert