Verkefnin sem skipta máli en ekki „valdabröltið“

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Arnþór

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að fráfarandi ríkisstjórn skilji eftir sig slæma stöðu í efnahagsmálum og að ekkert bendi til þess að ný ríkisstjórn ráði við verkefnin sem eru fyrir hendi.

„Þjóðin vill að verkefnin séu leyst óháð því hver er í hvaða stól. Okkar skoðun er sú – og ég held að almenningur átti sig á því – að fráfarandi ríkisstjórn er að skilja eftir sig mjög erfiða stöðu. Hennar arfleið verður þessi staða í efnahagsmálum,“ segir Kristrún í samtali við mbl.is.

„Háir vextir, há verðbólga og hátt húsnæðisverð. Við erum með 80 milljarða ófjármagnaðar útgjaldatillögur í tengslum við kjarasamninga, við erum með ófjármagnaðar aðgerðir í tengslum við Grindavík og húsnæðisvandinn þar er enn til staðar. Það er engin fjármálaáætlun komin og samgönguáætlun situr föst í nefnd. Það hefur verið algjört stopp í framkvæmdum í orku- og samgöngumálum.“

Þjóðin geri kröfu um árangur

Hún segir ekkert benda til þess að ný ríkisstjórn muni ráða við verkefnin sem hún taldi upp, þar sem ekkert hefur breyst að hennar mati.

„Þjóðin gerir kröfu um árangur og það hafa engar breytingar orðið á þeim fókus sem er í núverandi ríkisstjórn. Þessi verkefni sem síðasta ríkisstjórn skildi eftir sig standa enn þá ókláruð. Þetta er auðvitað bara það sem þjóðin er umhugað um, það eina sem skiptir máli eru verkefnin, ekki valdabröltið,“ segir Kristrún.

Allt eins til í að sjá kosningar í haust

Bjarni Benediktsson, verðandi forsætisráðherra, sagði í samtali við mbl.is að hann gerði ráð fyrir kosningum haustið 2025, þegar kjörtímabilinu lyki. Kristrún kveðst sýna því skilning að ekki sé boðað til kosninga strax vegna forsetakosninganna en hún segir brýnt að finna dagsetningu á næstu Alþingiskosningar.

„Það gæti allt eins verið í haust,“ segir Kristrún.

Vantraust á ríkisstjórnina ekki komið til skoðunar

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir í samtali við mbl.is að hún íhugi að leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina í heild sinni. Spurð hvort að samhugur sé um slíka vantrauststillögu í stjórnarandstöðunni segir Kristrún málið ekki hafa komið til umræðu.

„Þetta hefur bara ekkert verið rætt, þetta hefur ekki verið rætt í þingflokki Samfylkingarinnar þannig þetta hefur ekki verið til umræðu í dag. Við þurfum bara að sjá hvernig vikan þróast,“ segir Kristrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert