Skólastjórnendur vísa sögusögnum á bug

Fyrirhugug sameining allra skóla í Fjarðabyggð varð til þess að …
Fyrirhugug sameining allra skóla í Fjarðabyggð varð til þess að það slitnaði úr bæjarstjórnarsamstarfinu. mbl.is/Sigurður Bogi

Skólastjórnendur í Fjarðabyggð vísa sögusögnum á bug um að þeir hafi hunsað tölvupósta frá fræðsluyfirvöldum. Þeir segja vegið að heiðri sínum og með því sé traust þeirra til fræðsluyfirvalda rúið.

Í febrúarlok var lögð fram til­laga um breyt­ing­ar á stjórn­kerfi fræðslu­mála í Fjarðabyggð sem leiddi til þess að meiri­hluta­sam­starfið sprakk. Breytingarnar fela í sér sam­ein­ingu allra skóla í Fjarðabyggð.

Stjórnendur á leik-, grunn- og tónlistarskóla í Fjarðabyggð hafa sagst ósáttir við tillöguna en sögur hafa gengið manna á milli um að skólastjórnendur hafi ítrekað hunsað tölvupósta frá bæjaryfirvöldum. Þeim sögum vísa skólastjórnendur alfarið á bug.

„Við höfnum því alfarið að við ástundum slík vinnubrögð og teljum að með þessu sé traust okkar til fræðsluyfirvalda í Fjarðabyggð rúið,“ segir í yfirlýsingu skólastjórnenda.

Sér til rökstuðnings settu skólastjórnendur saman tímalínu sem sýnir samskipti skólastjórnenda og bæjaryfirvalda.

Yfirlýsingin í heild sinni

Undanfarna daga hefur okkur ítrekað borist til eyrna að stjórnendur á leik-, grunn- og tónlistarskóla hafi markvisst og meðvitað látið ógert að svara póstum frá fræðsluyfirvöldum um samráð vegna fyrirhugaðra breytinga á fræðslumálum í Fjarðabyggð. Við getum ekki sætt okkur við að vera borin röngum sökum og höfum þess vegna, öll sem eitt, rýnt í okkar tölvupósta og aðrar þær upplýsingar sem við höfum aðgang að með það að markmiði að ganga úr skugga um hvort þessar ásakanir séu á rökum reystar [svo].

Við höfum tekið þessar upplýsingar saman og útbúið tímalínu yfir röð atburða. Þar kemur fram að á kynningarfundi 14. október (föstudagur) er fyrst leitað til skólastjórnenda um samráð við stjórnendur og kennara vegna vinnunnar. 17. október svarar fræðslustjóri skólastjórnendum grunnskóla og gefur nánari upplýsingar um störf starfshópsins. Þann 19. október (fimmtudagur) er samráð við kennara hinsvegar afþakkað. Við getum á engan hátt samþykkt að þessi samskipti endurspegli það að stjórnendur hafi ítrekað hunsað beiðni fræðslustjóra um samstarf.

Við stjórnendur í leik-, grunn- og tónlistarskólum Fjarðabyggðar teljum okkur vinna störf okkar af fagmennsku og heilindum og að með þessum aðdróttunum sé vegið að heiðri okkar sem við getum á engan hátt sætt okkur við.

Við höfnum því alfarið að við ástundum slík vinnubrögð og teljum að með þessu sé traust okkar til fræðsluyfirvalda í Fjarðabyggð rúið.

Skjáskot/Aðsent
Skjáskot/Aðsent
Skjáskot/Aðsent
Skjáskot/Aðsent
Skjáskot/Aðsent
Skjáskot/Aðsent
Skjáskot/Aðsent
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert