Fækka nefndum og auka eftirlit með styrkjum

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Auka á eftirlit með styrkjum til nýsköpunar og skoða nánar skilyrði fyrir endurgreiðslu á kostnaði vegna kvikmyndaframleiðslu hér á landi, en áfram verður þó miðað við 35% endurgreiðslu. Þá á að fækka opinberum nefndum. Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra í samtali við mbl.is.

Sigurður kynnti nýja fjármálaætlun 2025-2029 fyrr í dag og fór þar yfir nokkrar hagræðingarhugmyndir. Í þeirri upptalningu nefndi hann nýsköpunarstyrki og endurgreiðslur vegna kvikmyndaframleiðslu auk þess að fækka ætti opinberum nefndum og lék blaðamanni forvitni á að vita nánar hvað hann ætti við þarna.

Gagnrýni á eftirlit frá OECD

Sigurður vísar í skýrslu frá OECD frá því í fyrra, en þar voru íslensk stjórnvöld gagnrýnd fyrir eftirlit sitt með nýsköpunarstyrkjum sem veittir eru vegna kostnaðar sem hlýst af rannsóknum og þróun. Hefur sá kostnaður aukist mikið undanfarin ár og er nú áætlaður um 16 milljarðar á þessu ári.

„Við erum að flagga því að á sama tíma og við erum að viðhalda mjög háu stuðningsneti í kringum nýsköpun, rannsóknir og þróun þá munum við á sama tíma auka eftirlit með þeim útgjöldum.“

Eru þarna einhverjar upphæðir sem þið teljið að séu að fara forgörðum?

„Það eru alla vega verulegar fjárhæðir sem við erum að setja í þennan málaflokk og hann hefur skilað sér. Við erum að sjá nýjar hagvaxtar- og útflutningsgreinar vaxa á grunni þess. En það er líka mikilvægt þegar við aukum útgjöldin svo hratt sem raun ber vitni á síðustu árum, að við höfum eftirlit með þeim útgjöldum,“ segir Sigurður.

Horft til þess að fækka nefndum

Varðandi kvikmyndastyrkina ítrekar Sigurður að ekki sé horft til þess að lækka endurgreiðsluhlutfallið úr 35%. Hins vegar sé til skoðunar að fara yfir skilyrði fyrir því hvernig styrkurinn er veittur. Hann tekur þó fram að það sé á hendi menningar- og viðskiptaráðuneytisins.

Þegar kemur að nefndunum segir Sigurður að þeim mætti fækka og ná fram hagræðingu með því að horfa til norræns módels varðandi sameiginlega yfirbyggingu nefnda. Nefnir hann að á Norðurlöndunum hafi verið sett upp hús nefnda fyrir til dæmis úrskurðanefndir. Þá er fjöldi nefnda sameinaður undir sama þaki og með sömu yfirbyggingu í stað þess að halda úti mismunandi nefndum á mismunandi stöðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert