Spyr hvort að ekki þurfi að boða til kosninga

Halldóra Mogensen spurði hvort að ekki þyrfti að boða til …
Halldóra Mogensen spurði hvort að ekki þyrfti að boða til kosninga í kjölfar niðurstöðu MDE. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingmenn stjórnarandstöðunnar gerðu niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) að umræðuefni sínu við upphaf þingfundar í dag undir liðnum „fundarstjórn forseta“.

Kallað var eftir kosningum og breytingu á stjórnarskrá Íslands til að bregðast við niðurstöðu dómstólsins.

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, hefur óskað eftir því að skrifstofa Alþingis framkvæmi greiningu á niðurstöðu dómstólsins og verður sú niðurstaða kynnt þingmönnum þegar hún liggur fyrir. Þetta sagði Birgir á þinginu nú fyrir skömmu.

Var ís­lenska ríkið dæmt brot­legt gegn rétti borg­ara til frjálsra kosn­inga sem og gegn meg­in­reglu um skil­virk rétt­ar­úr­ræði í kosn­ing­un­um til Alþing­is árið 2021. Að mati Mann­rétt­inda­dóm­stóls­ins gátu þing­menn ekki verið „póli­tískt hlut­laus­ir“ í ákvörðun­ar­töku um kosn­ing­una.

Hljóti að kalla á endurskoðun á stjórnarskránni

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, sagði að niðurstaðan hlyti að kalla á endurskoðun á stjórnarskránni.

„Svo þætti mér fullkomlega eðlilegt að varpa því fram þegar við erum að tala um ábyrgðina og hverjar eru pólitískar afleiðingar af þessu, þá hljótum við að spyrja okkur hvort það sé ekki eðlilegt að við boðum hreinlega til kosninga.“

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í ræðu sinni að hún hygðist taka upp þetta mál í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á morgun.

Hvatti hún þingheim til að breyta lögum „sem nauðsynlegt er að breyta og breyta ákvæðum stjórnarskrár“.

Nefndin starfaði af heilindum

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kvaðst taka undir margt af því sem aðrir þingmenn höfðu sagt.

Hún sagði það vera sjálfsagða skyldu þingheims að ræða þá anga fyrirkomulags kosninga á Íslandi sem MDE gagnrýndi. Þó vildi hún minna á, eins og fram kom í niðurstöðu MDE, að störf kjörbréfanefndar hefðu verið unnin af heilindum.

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, sagði niðurstöðu dómstólsins vera áfellisdóm á því hvernig framkvæmd kosninga væri háttað hér á landi. Hún sagði mikilvægt að geta tekið umræðu um þetta mál og ætti sú umræða að vera hafin yfir pólitíska flokkadrætti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert