Hafa „ágætis tíma“ til úrbóta

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórnvöld eru að skoða tillögur til úrbóta í tengslum við endurskoðun á stjórnarskránni vegna dóms Mannréttindadómstóls Evrópu, MDE, um að íslenska ríkið hafi brotið gegn rétti borgara til frjálsra kosninga og gegn meginreglu um skilvirk réttarúrræði í kosningunum til Alþingis árið 2021.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir aðspurður að niðurstaða MDE hafi ekki að öllu leyti komið sér á óvart. Hafa beri í huga að í ferlinu sem var unnið heima fyrir hafi lagabókstafnum verið fylgt í einu og öllu um það hvernig greiða ætti úr málinu.

Magnús Davíð Norðdahl og Guðmundur Gunnarsson.
Magnús Davíð Norðdahl og Guðmundur Gunnarsson. Samsett mynd

„Það er ekki deilt um það en hins vegar bendir Mannréttindadómstóllinn á að íslenska lagaumhverfið samræmist ekki að fullu skuldbindingum samkvæmt sáttmálanum og það er eðlilegt að við bregðumst við því,” segir Bjarni, sem ræddi við blaðamann að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Hafa sex mánuði

Auk þess að skoða tillögur til úrbóta í tengslum við endurskoðun á stjórnarskránni segir Bjarni að fræðimenn hafi velt vöngum yfir því hvort nauðsynlegt sé að breyta stjórnarskránni og að mögulega væri hægt að koma til móts við dóm MDE með öðrum hætti.

„Samkvæmt reglunum þá höfum við, frá því að svona niðurstaða er orðin bindandi sem er innan þriggja mánaða, sex mánuði til þess að greina frá því hvernig við hyggjumst bregðast við, þannig að við höfum ágætis tíma til að vinna úr þessu,” bætir Bjarni við.

Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg.
Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg. Ljósmynd/Evrópuráðið

Þarf að vinnast í sem mestri sátt

Spurður hvort það sé ekki töluvert mál að breyta stjórnarskránni segir hann síðastliðinn einn og hálfan áratug, eða síðan skriðþungi komst í umræðuna um breytingar á henni, hafa talað fyrir því að slíkar breytingar skuli vinna í sem mestri sátt. Þannig vill hann haga framhaldi þessarar vinnu og reyna að ná utan um þau atriði sem þingflokkarnir geta verið sáttir við.

Inntur eftir því hvort brot íslenska ríkisins í málinu sé ekki alvarlegt segir hann lykilatriðið í niðurstöðu MDE vera að þeir sem fengu kjör í kosningunum séu sjálfir að kveða upp úr með gildi kosninganna. Rétturinn til að fá þá niðurstöðu endurskoðaða sé grundvallarréttindi sem séu varin í mannréttindasáttmálanum. „Jú, við hljótum að taka því alvarlega,” segir Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert