Katrín gæti hafa náð sínu kjarnafylgi

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spennandi verður að sjá hvort fylgi Katrínar Jakobsdóttur forsetaframbjóðanda í skoðanakönnunum muni hreyfast eitthvað á næstunni en það virðist vera fast í um 30%.

Þetta sagði Eva H. Önnudóttir prófessor í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Hún kvaðst velta fyrir sér hvort þessi 30% væru kjarnafylgi Katrínar sem myndi mögulega ekki hreyfast mikið fram að kosningum.

Nefndi hún í framhaldinu að dæmi væru um að forseti hefði verið kosinn með 33% atkvæða, eða Vigdís Finnbogadóttir.

Baldur Þórhallsson.
Baldur Þórhallsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Afgangurinn dreifist á þrjá til fjóra

Sigmundur Ernir Rúnarsson fjölmiðlamaður var einnig gestur þáttarins. Hann sagði Katrínu virðast vera komna með nokkuð traust fylgi þvert á flokka sem væri ekkert endilega að fara.

Sagðist hann telja að hitt fylgið ætti eftir að dreifast á Baldur Þórhallsson, Jón Gnarr, Höllu Hrund Logadóttur og jafnvel Höllu Tómasdóttur. Ívið meiri hreyfing gæti orðið á fylgi þeirra og mögulega ættu þau eftir að gjalda fyrir það.

Hann sagði jafnframt spurningu hvort fólk myndi skila sér á kjörstað og hafði þar mestar áhyggjur af fylgismönnum Jóns Gnarr sem væru flestir af ungu kynslóðinni.

Nefndi hann einnig að þessir fjórir til fimm efstu í skoðanakönnunum væru upp til hópa frjálslynt og upplýst menntafólk sem væri „svolítið að hræra í sama potti”.

Halla Hrund Logadóttir.
Halla Hrund Logadóttir. mbl.is/María Matthíasdóttir

„Lýðræðisveisla“

Sigmundur Ernir sagði kosningarnar athyglisverðar, meðal annars vegna þess gríðarlega mikla fjölda sem sækist eftir embættinu og hefði „í flestum tilfellum ekki innistæðu fyrir því”.

„En þetta er lýðræðisveisla og maður fagnar því að það er virk þátttaka í samfélaginu,” sagði hann.

Halla Tómasdóttir.
Halla Tómasdóttir. mbl.is/Óttar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert