„Það yrði enginn hissa ef það byrjaði gos í dag“

Frá aðgerðum við síðasta gos við Sundhnúkagíga.
Frá aðgerðum við síðasta gos við Sundhnúkagíga. mbl.is/Hörður Kristleifsson

„Það yrði enginn hissa ef það byrjaði gos í dag, en það gæti líka dregist í daga og vikur,“ segir Páll Einarsson, prófessor emeritus við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, spurður hvenær hann telji að gos muni hefjast á ný við Svartsengi.

Páll segir núverandi aðstæður vera þess háttar að gos muni hefjast brátt en ómögulegt sé að vita hvenær.

„Það er bara mikilvægt að fylgjast vel með og passa að ekkert muni koma á óvart og gera ráð fyrir því að atburðarásin geti hlaupið út undan sér og tekið einhverja óvænta stefnu.“  

Kvikusöfnunin er nú orðin 16 milljón rúmmetrar, telur þú það benda til þess að það verði stærra gos en það sem við höfum séð áður?

„Það er ómögulegt að segja, það er ekki beint hægt að segja að það sé eitthvað samband á milli þess, en það fer ekkert á milli mála að það er yfirvofandi gos í nágrenni við Grindavík.“

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur.
Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur. mbl.is/Sigurður Bogi

Margt svipar til Kröflugosins

Páll segir eldgosin við Svartsengi ekki ósvipuð Kröflueldunum en þó séu einhver ólíkindi á milli þessara gosa.

Rétt eins og þá skiptist virknin upp í tímabil.

Annars vegar tímabil sem eru örugg og ólíklegt er að gos hefjist og hins vegar tímabil aðgæslu þar sem líkur væru á nýju gosi eða kvikuhlaupi.

„Það sem er ólíkt, er að flekaskilin við Svartsengi eru af öðru tagi. Þetta er skáreksbelti á Reykjanesskaganum og það eru fleiri en eitt eldstöðvakerfi sem taka þátt í atburðarásinni, ólíkt því sem var í Kröflu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert