Klopp er fyrst og fremst góð manneskja

Guðlaugur hefur eingöngu fengið jákvæð viðbrögð við númeraplötunni.
Guðlaugur hefur eingöngu fengið jákvæð viðbrögð við númeraplötunni.

Ekkert enskt knattspyrnulið á jafn marga stuðningsmenn á Íslandi og FC Liverpool. Þar sem stjórinn vinsæli Jürgen Klopp er að kveðja félagið þótti Morgunblaðinu rétt að taka einhvern þeirra tali og fáir eru betur til þess fallnir en Siglfirðingurinn Guðlaugur Birgisson sem ekur um höfuðborgarsvæðið með einkanúmerið JKlopp.

„Konan mín kveikti aðeins í mér því hún var með einkanúmer og sú hugmynd kom upp að ég myndi líka gera það til gamans en fram að því hafði ég aldrei velt því neitt fyrir mér. Eitthvað sem tengdist Liverpool var mér strax ofarlega í huga þar sem ég hef verið áhangandi liðsins frá því ég fór að muna eftir mér,“ segir Guðlaugur þegar hann er spurður út í aðdragandann.

„Ég athugaði hvaða númeraplötur væru á lausu sem tengdust Liverpool og fór fljótt að hugsa um Jürgen Klopp. Hann er svo skemmtilegur og stór persónuleiki. En einkanúmerið Klopp var frátekið og þá valdi ég JKlopp. Ég lét vaða og hef verið með þessa númeraplötu á bílnum síðan 2018 eða 2019.“

Klopp var ráðinn árið 2015 til Liverpool og liðið varð Englandsmeistari árið 2020 eftir 30 ára bið. Guðlaugur fékk sér því númerið áður en liðið braut þann ís en myndin sem fylgir viðtalinu er einmitt tekin þegar titillinn var í höfn sumarið 2020.

Sinna þarf heilsunni

Í dag eru tímamót hjá Liverpool þegar lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar fer fram en þá stýrir Jürgen Klopp liðinu í síðasta sinn. Í bili að minnsta kosti. Guðlaugur segir að þessu fylgi blendnar tilfinningar.

„Við munum auðvitað sakna hans og hann hefur náð stórkostlegum árangri. Maður er þakklátur fyrir allar stundirnar sem hann hefur gefið okkur og hann stendur fyrir þau gildi sem félagið vill standa fyrir. Hann er ástríðufullur maður, snillingur á sínu sviði en fyrst og síðast góð manneskja. Vinsældir hans ná langt út fyrir aðdáendaklúbb Liverpool. Hann gefur mikið af sér og maður hefur séð á honum viss þreytumerki. Þar af leiðandi er ágætt fyrir hann að fá frí frá boltanum í smá tíma til að sinna sjálfum sér og sinni heilsu.“

Guðlaugur starfar sem sjúkraþjálfari. Hér talar sjúkraþjálfarinn, eða hvað? Guðlaugur skellir upp úr.

„Já, kannski sér maður þetta með þeim gleraugum en þegar maður les í fas hans þá sér maður þreytu. Hann gefur sig allan í vinnuna og þarf að passa sig á því að brenna ekki kertið alveg niður. Maður sér það eftir að hafa fylgst með honum í níu ár. Í því samhengi finnst mér gott að hann fái frí. Hver veit nema hann taki síðar við þýska landsliðinu og geri þá að heimsmeisturum?“

Ekki á leið í geymsluna

Guðlaugur var á unglingsaldri og fór á völlinn þegar Liverpool kom til landsins og lék vináttuleik gegn KR í Laugardalnum sumarið 1984. Hann hefur einu sinni farið og séð Liverpool leika á Anfield. Hann segist líta á númeraplötuna sem virðingarvott við manninn sjálfan og því geti allt eins farið svo að hún verði áfram í notkun þótt Klopp rói á önnur mið.

„Ég hef ekki í hyggju að hætta að vera með númerið. Klopp á örugglega eftir að vinna stóra sigra á knattspyrnusviðinu í framtíðinni og ég mun áfram bera sömu virðingu fyrir honum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert