Aþena dæmd í fjögurra ára fangelsi

Aþena bar fyrir sig að um sjálfsvörn hafi verið að …
Aþena bar fyrir sig að um sjálfsvörn hafi verið að ræða. mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt 23 ára gamla konu, Aþenu Sif Eiðsdóttur, í fjögurra ára fangelsi fyrir stórfellda líkamsárás.  Ekki var fallist á að um tilraun til manndráps hefði verið að ræða. 

Aþena bar fyrir sig sjálfsvörn, en hún var sökuð um að ráðast aðra konu. Konan hafði sakað Aþenu um að halda við kærasta hennar. 

Er Aþenu gert að hafa beitt butterfly-hníf og stungið fórnarlambið fimm sinnum í líkamann með hnífi. Fékk konan áverka á vinstri öxl neðan viðbeins, hægra læri, hægri upphandlegg, vinstra handarbaki og baugfingri hægri handar.

Hallaði sér inn í bílinn 

Málsatvik eru sögð þannig að kærasti konunnar var í bíl með Aþenu sem var að skutla honum heim til sín eftir gleðskap. Konan sem fyrir árásinni varð er sögð hafa veist að kærasta sínum og sakað hann um framhjáhald. Hann yfirgaf staðinn og fór inn í fjölbýlishús. Í framhaldinu hafi konan beint sjónum að Aþenu þar sem hún sat í bíl. 

Konan hafi rifist við Aþenu og sakað hana um að vera að sofa hjá kærastanum. Því hafi Aþena hafnað.

Aþena sat inni í bíl. Konan hallaði sér inn í hann og er það mat dómsins að hún hafi verið í uppnámi á þessum tímapunkti. Til átaka hafi komið og Aþena hafi gripið til hnífs og stungið konuna.

Taldi dómurinn að málsvörn sem byggði á sjálfsvörn Aþenu vegna ágangs konunnar ætti ekki við rök að styðjast. Hins vegar þótti ekki ástæða til að sakfella hana fyrir tilraun til manndráps. 

Ber að greiða 4,6 milljónir króna 

Lögreglan haldlagði hníf sem fannst í aftursæti bifreiðarinnar sem Aþena var á. Um var að ræða svokallaðan butterfly-hníf og voru drekamyndir á hvorum hluta skeftisins sem leggjast saman utan um hnífsblaðið þegar hnífurinn er samanbrotin. Hnífsblaðið sjálft var 10 cm langt

Aþena var því dæmd til fjögurra ára fangelsisvistar, auk þess að greiða máls- og lögmannakostnað upp á um 3,7 milljónir króna.

Þá er henni gert að greiða konunni 900 þúsund krónur auk vaxta. Í heild er því Aþenu gert að greiða að lágmarki 4,6 milljónir króna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka