Bilun varað í margar vikur

Upplýsingar um rennsli og vatnshæð í helstu ám landsins hafa …
Upplýsingar um rennsli og vatnshæð í helstu ám landsins hafa ekki verið aðgengilegar síðan í mars. mbl.is/Arnþór

Ekki hefur verið hægt að nálgast upplýsingar um vatnamælingar, til að mynda rennsli og vatnshæð í helstu ám landsins, á vef Veðurstofu Íslands með auðveldum hætti svo vikum skiptir.

Bilunin stafar af því að uppfæra þurfti svokallaða LSS-lykla á lykiltölvum og nýjasta útgáfan leyfði ekki uppfærslu á jafn gömlum tölvum og Veðurstofan notar.

Var bráðabirgðalausn

„Við erum að vonast til að þetta verði komið í lag í lok vikunnar,“ segir Ingvar Kristinsson, framkvæmdastjóri athugana- og upplýsingatæknisviðs, í samtali við Morgunblaðið. Hann segir viðgerðina hafa tafist af ýmsum ástæðum, meðal annars vegna þess að starfsmenn hafi farið í páskafrí.

Hann segir lausnina sem var notuð þar til í mars hafa verið bráðabirgðalausn. Nú eru sérfræðingar búnir að finna aðra lausn og verið er að virkja hana.

Ingvar bendir á að hægt hafi verið að nálgast gögnin með eldra kerfi Veðurstofunnar, en að notendur hafi þurft að breyta slóðinni handvirkt til þess að hægt væri að skoða þau.

„Við ætlum bara að setja upp nýjustu uppfærsluna okkar með öllum þessum gögnum,“ segir Ingvar og bætir við að hún muni koma til með að vera aðgengileg á sama stað og áður á vefnum, undir flipanum „vatnafar“. Hann segir kostnaðinn við þessar lagfæringar vera innan eðlilegra marka.

Vefur Veðurstofunnar er kominn til ára sinna, að minnsta kosti í hinum síbreytilega stafræna heimi, og hefur lengi verið unnið að nýjum vef. Spurður að því hvenær sá vefur muni líta dagsins ljós segir Ingvar: „Fljótlega.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka