„Mælum ekki með því að íbúar dvelji í bænum“

Eldgosinu við Sundhnúkagíga lauk 9. maí.
Eldgosinu við Sundhnúkagíga lauk 9. maí. mbl.is/Hörður Kristleifsson

„Það er bara sama viðbragð hjá okkur og verið hefur og við höldum okkar striki. Við bíðum bara eins og aðrir eftir því að eitthvað gerist hvenær sem það verður.“

Þetta segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is spurður að því hvort lögreglustjórinn hafi aukið viðbragð í ljósi þess að líkur á nýju eldgosi aukast frá degi til dags.

Nú hafa um 17 milljónir rúmmetrar af kviku safnast undir Svartsengi frá því síðasta eldgos hófst 16. mars og meta vísindamenn á Veðurstofu Íslands að auknar líkur séu taldar á nýju kvikuhlaupi og eldgosi næstu daga. Telja þeir að fyrirvari á eldgosi gæti orðið mjög skammur.

Fólk tekur tillit til ástandsins

„Við mælum ekki með því að íbúar Grindavíkur dvelji í bænum og ég held að fólk taki tillit til ástandsins og því sem vísindamenn segja,“ segir Úlfar. Hann segir að starfsemin í bænum sé svipuð og hún hafi verið yfir nokkuð langt tímabil.

„Gist er í 20-30 húsum og svo er atvinnustarfsemi að mestu leyti bundin við hafnarsvæðið. Það eru allir á tánum og meðvitaðir um stöðuna,“ segir Úlfar.

Úlfar segir að ekkert hafi borið á því að ferðamenn séu að reyna að komast að gosstöðvunum en ekki þykir tímabært af öryggisástæðum að hleypa fólki að nýja hrauninu.

Grindavík er lokuð öllum öðrum en viðbragðsaðilum, íbúum bæjarins, starfsmönnum Grindavíkurbæjar, fyrirtækja, verktökum og þeim sem þurfa að aðstoða íbúa.

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka