Á erfitt með að skilja gagnrýni lögreglumanna

Sigurður segir að umræðan um fjárveitingar til löggæslumála sé af …
Sigurður segir að umræðan um fjárveitingar til löggæslumála sé af röngum toga. Samsett mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á erfitt með að skilja umræðu og gagnrýni Landssambands lögreglumanna, sem hafa gagnrýnt boðaðan niðurskurð til löggæslumála í fjármálaáætlun 2025-2029.

„Ég á erfitt með að skilja þá umræðu. Við jukum í fyrra um 900 milljónir til almennra lögreglumanna. Á síðustu 10 árum hefur lögreglumönnum fjölgað úr 682 í 909, ég veit að þeir voru reyndar mun fleiri fyrir 15 árum og hlutfallslega þyrftu þeir örugglega að vera fleiri,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi.

Umræðan af röngum toga

Hann segir að á síðustu árum sé búið að auka stuðning við málaflokkinn og nefnir hann að búið sé að falla frá boðuðu aðhaldi í ár og á næsta ári til löggæslumála.

„Þannig ég verða að segja alveg eins og er að mér finnst þessi umræða vera svolítið af röngum toga.“

Hann segir að á síðustu árum hafi verið um 25% fjölgun lögreglumanna á síðustu 10 árum og að í þeim tölum séu ekki meðtaldir sem hafa verið ráðnir sem lögfræðingar og skrifstofufólk, heldur bara þeir sem er í Landssambandi lögreglumanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert