Bankarnir áætla að um 30 milljarðar gætu tapast

Bankarnir áætla að undirliggjandi hagsmunir í dómsmálum sem liggja fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, Héraðsdómi Reykjaness og Landsrétti um skýrleika skilmála breytilegra vaxta neytendalána nemi um 30 milljörðum króna.

Svo segir Ingvi Hrafn Óskarsson, lögmaður lántaka sem reka dómsmál gegn Íslandsbanka og Landsbanka. Vísar hann þar til ársreikninga bankanna þar sem getið er um mögulegt tap í dómsmálum sem nú eru fyrir dómstólum. Samtök fjármálafyrirtækja staðfesta að upphæðin sé nærri lagi. 

Í áliti EFTA dómstólsins sem birt var í gær kemur fram að hann telur óskýrleika til staðar í skilmálum neytendalána varðandi útreikning á útlánavöxtum. 

Í álitinu setur EFTA dómstólinn þó þann fyrirvara að það sé íslenskra dómstóla að meta hvort niðurstaða EFTA samræmist íslenskum lögum. Hafa ber í huga EES reglur sem innleiddar hafa verið ber að túlka í samræmi við EES samninginn og í samræmi við ráðgjöf EFTA dómstólsins.

Vextir á markaði og önnur fjármögnunarkjör

Að sögn Ingva er krafa neytenda sú að miðað verði við samningsvexti í upphafi lántöku og að lánastofnunum hafi verið óheimilt að breyta vöxtum eftir hana.

Í skilmálum Landsbanka, sem varða eitt þeirra mála sem er fyrir dómstólum, er m.a. kveðið á um að vaxtaákvarðanir Seðlabanka Íslands, vextir á markaði og önnur fjármögnunarkjör Landsbankans hafi áhrif á vaxtaákvarðanir bankans.

Í skilmálum Íslandsbanka er öllu nákvæmara orðalag. 

„Vextir Íslandsbanka hf. á láni þessu og breytingar á þeim taka meðal annars mið af breytingum á fjármögnunarkostnaði (lánskjörum) bankans, rekstrarkostnaði, opinberum álögum og/eða öðrum ófyrirséðum kostnaði, stýrivöxtum Seðlabanka Íslands, breytingum á vísitölu neysluverðs o.s.frv.“

Eldri lán og jafnvel bílalán líka undir?

Fram kemur í máli Neytendasamtakanna að þau telja að viðfangsefni íslenskra dómstóla eigi einungis við um fasteignalán til neytenda sem tekin hafa verið eftir 1.apríl 2017. Telur þú það vera rétt?

„Það er rétt að vissu leyti það sem fram kemur að þetta er fordæmi fyrir fasteignalán sem tekin voru eftir þann tíma. Hins vegar verður að horfa á það að rökin sem EFTA notar byggjast ekki eingöngu á tilskipuninni sem innleidd var árið 2017. Heldur er einnig vísað í þær gagnsæiskröfur sem leiða af tilskipun um óréttmæta samningsskilmála. Sú tilskipun var leidd í lög árið 1993 með breytingum á lögum um samningsgerð og gildir um alla neytendasamninga. Fasteignalán, bílalán og hvaðeina,“ segir Ingvi.

Hann segir að í forsendum álits EFTA dómstólsins hafi þessum tveimur tilskipunum frá árinu 1993 og 2017 verið beitt saman að niðurstöðu í málinu.

„Sjónarmiðin eiga því við um önnur lán líka,“ segir Ingvi.

Þegar fallið niðurstaða í öðru skírleikamáli

Eins bendir hann á að EFTA dómstóllinn hafi þegar sent álit í máli Neytendastofu gegn Íslandsbanka. Þar tók dómstóllinn afstöðu til láns sem tekið var fyrir gildistöku laga um fasteignalán til neytenda. Niðurstaðan þar var byggð á sambærilegum sjónarmiðum um að sá skilmáli hafi ekki uppfyllt skírleikakröfur.

Bankarnir hafi sjálfir áætlað tjónið

Ef þessi niðurstaða hefur breiðari skírskotun en eingöngu til ársins 2017, eru hagsmunirnir þá ekki gríðarlegir fyrir samfélagið í heild?

„Við náttúrlega getum ekkert ályktað um tjónið fyrr en dómstólarnir hafa tekið á þessu. Spurningin sem snýr að fjárkröfunni og hvernig hún verður ákvörðuð, verður ekki ákveðin af EFTA dómstóli heldur íslenskum. En ef ýtrustu kröfur neytenda í málinu er teknar til greina þá myndi það þýða að vaxtahækkanir undanfarinna ára fást ekki staðist. Það hefði veruleg áhrif á lánastofnanir og ég treysti mér ekki til að segja til um umfangið,“ segir Ingvi. 

„Bankarnir hafa hins vegar sjálfir lagt mat á mögulega tapsáhættu. Lesa má um það í ársreikningum stóru bankanna þriggja. Samanlagt eru þeir að áætla mögulega 30 milljarða króna tjón ef kröfur neytenda ná fram að ganga. Það er þeirra eigið mat og snýr að verulegum fjárhæðum, en ekkert sem myndi setja fjármálastöðugleika í hættu,“ segir Ingvi.

Leiðrétt 15:35: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar sagði að Landsbanki teldi viðfangs­efni ís­lenskra dóm­stóla eiga ein­ung­is við um fast­eignalán til neyt­enda sem tek­in hafa verið eft­ir 1.apríl 2017. Því var hins vegar snúið á haus og var það álit Neytendasamtakanna að þetta næði til viðkomandi fasteignalána. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert