Vaxtaákvæðin standist lög sama hvað EFTA segir

Orðalag eins og „vext­ir á markaði“ og „breyt­ing­ar á fjár­mögn­un­ar­kostnaði …
Orðalag eins og „vext­ir á markaði“ og „breyt­ing­ar á fjár­mögn­un­ar­kostnaði bank­ans“ er ekki gagn­sætt að mati EFTA. mbl.is/sisi

Landsbankinn telur vaxtabreytingaákvæði sín enn standast íslensk lög, þrátt fyrir að dómstóll EFTA kveði þau ógagnsæ. Það sé íslenskra dómstóla dæma um gildi vaxtabreytingaákvæða í fasteignalánum hér á landi, ekki EFTA-dómstólsins.

Orðalag skil­mála í láns­samn­ing­um banka með breyti­leg­um vöxt­um á Íslandi er ekki gegn­sætt, sam­kvæmt ráðgef­andi áliti sem EFTA-dóm­stóll­inn kvað upp í dag, en EFTA eru Fríversl­un­arsamtök Evr­ópu.

Álitið var veitt að beiðni héraðsdóms í tveimur dómsmálum sem höfðuð hafa verið gegn Landsbankanum, annars vegar, og Íslandsbanka, hins vegar. Málin varða samningsákvæði um forsendur fyrir breytingum á vöxtum fasteignalána.

Formaður Neyt­enda­sam­tak­anna sagðist í samtali við mbl.is vera sáttur við niður­stöðu EFTA-dóm­stóls­ins. Dómsmálið verður tekið til áframhaldandi meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.

Sérregla í íslenskum lögum

Álit EFTA-felur m.a. í sér túlkun á ákvæði fasteignalánatilskipunar 2014/17/EBE um forsendur fyrir vaxtabreytingum fasteignalána. 

Landsbankinn bendir aftur á móti á í tilkynningu að ákvæði hafi verið innleitt í íslensk lög, þ.e. lög nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda. Íslensku lögin hafi jafnframt að geyma sérreglu um skilyrði fyrir vaxtabreytingum sem ekki er að finna í fasteignalánatilskipuninni.

Bankinn bendir á að í álitinu sé komist að þeirri niðurstöðu að til greina komi að styðjast við aðrar forsendur við vaxtabreytingar en viðmiðunarvísitölur eða viðmiðunarvexti og ættu kröfur um skýrleika, aðgengileika, hlutlægni og sannreynanleika jafnframt við um slíka þætti.

„Þá geri fasteignalánatilskipunin þá kröfu að skilmálar og upplýsingar sem neytanda eru veittar skuli vera formlega og málfræðilega skiljanlegar og gera neytanda kleift að skilja þá aðferð sem beitt er við ákvörðun vaxta þannig að neytandi verði í aðstöðu til að meta fjárhagslegar afleiðingar samnings fyrir sig,“ segir í tilkynningunni.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kröfur laga uppfylltar?

Í niðurstöðu dómstólsins er aftur á móti ekki kveðið á um að vaxtabreytingarákvæðið í fasteignalánum Landsbankans uppfylli ekki framangreindar kröfur, bendir bankinn á. Það sé því mat bankans að kröfur íslenskra laga séu uppfylltar.

EFTA-dómstóllinn tekur heldur ekki endanlega afstöðu til þess hvort Landsbankinn hafi uppfyllt kröfur um ítarlega upplýsingagjöf og skýr, hlutlæg og skiljanleg viðmið þannig að neytandi geti metið afleiðingar skilmála um fjárhagslegar skuldbindingar. Það er mat bankans að þær kröfur séu uppfylltar.

Niðurstaðan í mál­inu mun aðallega hafa þýðingu fyr­ir þá sem tekið hafa fast­eignalán eft­ir að lög um fast­eigna lán til neyt­enda gengu í gildi þann 1. apríl 2017, að sögn Neyt­enda­sam­tak­anna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert