„Krakkarnir vilja ekki ganga einir“

Foreldrafélag Víðistaðaskóla ætlar að halda áfram foreldrarölti.
Foreldrafélag Víðistaðaskóla ætlar að halda áfram foreldrarölti. Samsett mynd/mbl.is/Eggert/Kristinn

Leit stendur enn yfir af manni eða mönnum sem hafa ógnað eða jafnvel ráðist á börn í Hafnarfirði að undanförnu. Foreldrar eru eðlilega uggandi og foreldrafélög í skólum bæjarins hafa tekið upp á foreldrarölti.

Björn Páll Fálki Valsson, formaður foreldrafélags Víðistaðaskóla, segir við mbl.is að undir lok síðustu viku hafi foreldrar vaktað svæðið í kringum gönguleiðir að skólanum og til standi að halda því áfram þar til maðurinn finnist.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú fjögur tilvik þar sem karlmaður veittist að börnum í Hafnarfirði.

Fyrsta málið átti sér stað á eða við Víðistaðatún í byrjun mánaðarins og tæpri viku síðar kom upp ámóta mál við Engidalsskóla. Á dögunum var tilkynnt um karlmann nærri Lækjarskóla og hann sagður elta barn og bjóða því nammi og síðastliðinn miðvikudag veittist maður að stúlku á göngustíg á milli Miðvangs og Víðistaðaskóla þar sem hann greip fyrir munn stúlkunnar og tók hana hálstaki.

Halda áfram foreldrarölti

„Við stefnum á að halda foreldraröltinu áfram og við erum búin að tryggja að fá foreldra alla vega fram á miðvikudag en það helst svolítið í hendur á meðan einhverjir foreldrar bjóði sig fram. Ef maðurinn næst þá verður þessu sjálfhætt,“ segir Björn Páll.

Björn segir að á föstudaginn hafi átta foreldrar tekið þátt í foreldraröltinu en börnunum er fylgt eftir í skólann að morgni til. Hann segist vita til þess að foreldrafélagið í Engidalsskóla hafi byrjað með foreldrarölt á föstudaginn.

Björn Páll, sem sjálfur á þrjú börn í Víðistaðaskóla, segir að öll börnin í skólanum séu meðvituð um stöðu mála og þeim finnist þetta mjög óþægilegt.

Þau eru vör um sig

„Maður hefur tekið eftir því að krakkarnir vilja ekki ganga einir þegar þeir heimsækja vini sína og vilja ganga með einhverjum öðrum eða ganga á móti hvort öðru. Þau eru vör um sig vegna þessara frétta. Þau eru svo nálægt því þeir krakkar sem hafa lent í þessu eru með þeim alla daga,“ segir Björn.

Hann segir að stúlkan sem lenti í atvikinu í síðustu hafi verið búin að fá fræðslu frá foreldrunum sínum hvernig hún ætti að bregðast við í svona aðstæðum og það hafi greinilega skilað sér. 

Lögreglan hefur hert eftirlit vegna þessara mála og segist Björn hafa orðið var við það.

„Ég hef séð lögreglubíla í kringum skólasvæðið og þá hafa bæði einkennisklæddir og óeinkennisklæddir lögreglumenn verið á svæðinu sem er mjög gott. “

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert