Um 80 skjálftar mælst í kvikuganginum

Eldgosinu við Sundhnúkagíga lauk 9. maí.
Eldgosinu við Sundhnúkagíga lauk 9. maí. mbl.is/Hörður Kristleifsson

Alls hafa um 80 jarðskjálftar mælst í kvikuganginum undir Svartsengi síðasta sólarhringinn. Þetta eru álíka margir skjálftar og mældust á svæðinu fyrir helgi.

Færri skjálftar mældust um helgina en þá var töluvert hvassviðri sem minnkaði næmni mælanna á svæðinu. Því er líklegast að virknin hafi verið svipuð alla helgi, að sögn Einars Hjörleifssonar, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Áfram eru merki um landris, auk þess sem ekkert bendir til þess að hægt hafi á kvikusöfnun frá því fyrir helgi.

Bera saman bækur sínar á morgun

Fundað verður um stöðu mála á svæðinu á morgun þegar sérfræðingar Veðurstofunnar ásamt almannavörnum og nokkrum sérfræðingum frá Háskóla Íslands bera saman bækur sínar.

Eldgosið í Sundhnúkagígum fyrir mánuði síðan.
Eldgosið í Sundhnúkagígum fyrir mánuði síðan. Ljósmynd/Hörður Kristleifsson

Veðurstofan telur enn að það geti gosið hvenær sem er.

„Við erum áfram í viðbragðsstöðu,” segir Einar og bætir við: „Við vöktum mjög vel smáskjálftavirkni á svæðinu núna. Það er erfitt að vera alltaf í viðbragði í tvær vikur en aðstæður núna kalla á það,” segir hann.

Almannavarnir og lögreglan vakta svæðið, auk þess sem fólk heldur áfram að gista í Grindavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert