Skorinn með hnífi í hópslagsmálum

Einn maður var handtekinn.
Einn maður var handtekinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Maður var skorinn á hendi með hnífi í hópslagsmálum sem brutust út í Kópavogi skömmu fyrir miðnætti í gærkvöldi. Einn maður var handtekinn.

„Það brutust út slagsmál þar sem menn tóku meðal annars upp hnífa,“ segir Gunnar Hilmarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni í Kópavogi, í samtali við mbl.is. Hann segir að sá sem var skorinn sé ekki alvarlega slasaður en hann var fluttur á slysadeild eftir atvikið.

Tveir hópar að gera upp einhver mál

Gunnar segir að komið hafi saman tveir hópar sem hafi verið að gera upp einhver mál sem ekki sé vitað hver séu. Hann segir að ekki sé vitað að svo stöddu hversu margir tóku þátt í hópslagsmálunum en einhverjir hafi verið farnir þegar lögreglan kom á vettvang.

Gunnar segir að einhverjir mannanna sem tóku þátt í slagsmálunum hafi komið við sögu lögreglunnar, þar á meðal sá sem er í varðhaldi. 

Hópslagsmálin áttu sér stað við Hjallabrekku 1 í Kópavogi en þar er úrræði á vegum Útlendingastofnunar fyrir hælisleitendur. Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni í Kópavogi að sögn Gunnars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert