Átak í málefnum aldraðra

Hrafnista í Reykjavík.
Hrafnista í Reykjavík. Morgunblaðið/ ÞÖK
Framboðin í Reykjavík í sveitarstjórnarkosningunum í vor vilja öll gera átak í málefnum aldraðra og meðal annars byggja ný hjúkrunarheimili, efla heimaþjónustu og hækka laun umönnunarstétta. „Það er lykilatriði að hækka laun þeirra sem sinna umönnunarstörfum. Það er fjöldinn allur af hæfu fólki sem myndi sækjast eftir slíkum störfum ef launin væru mannsæmandi. Það er ekki hægt að sætta sig við það lengur að þessi störf, sem eru að langmestu leyti kvennastörf, séu ekki metin að verðleikum,“ segir Svandís Svavarsdóttir, oddviti VG.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna, segir að sjálfstæðismenn leggi áherslu á mál eldri borgara. „Það er sjálfsagt réttlætismál að leiðrétta lægstu laun þeirra sem vinna að umönnun eldri borgara enda er það algjör forsenda þess að hægt sé að halda uppi fullnægjandi starfsemi á heimilum fyrir aldraða. Einnig er mikilvægt að marka stefnu til framtíðar um það hvernig við viljum búa að þeim sem eldri eru. Sjálfstæðismenn vilja efla og samræma heimaþjónustu og heimahjúkrun og gera stórátak í byggingu hjúkrunarheimila í samvinnu við ríkið.“

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, segir að opinberir aðilar verði að viðurkenna skyldur sínar í þessum efnum „og mega ekki velta óvissunni yfir á einstaklinga og aðstandendur með því að ríkið dragi við sig að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir eða að veita eðlilegan stuðning. Því viljum við taka upp svokallaða þjónustutryggingu, sem þýðir að ef þjónustan dregst óeðlilega skapast réttur til greiðslu. Þar með væri búið að innleiða fjárhagslegt aðhald á stjórnvöld til að byggja upp þjónustukerfin á þeim sviðum þar sem þjónustan er skilgreindur réttur einstaklinga.“

„F-listinn leggur áherslu á framkvæmdir í þágu fólksins en ekki gæluverkefni. Við ætlum að lækka fasteignagjöld aldraðra og öryrkja strax á næsta ári. Í því skyni viljum við hækka tekjumörk fyrir niðurfellingu fasteignagjalda um 100% þegar á næsta ári. Við teljum þetta raunhæfa aðgerð til að hjálpa öldruðum og öryrkjum að búa í eigin húsnæði eins lengi og þeir kjósa og að þetta fari vel saman við fyrirætlanir okkar um eflingu heimaþjónustu í borginni,“ segir Ólafur F. Magnússon, oddviti Frjálslynda flokksins.

Björn Ingi Hrafnsson, oddviti Framsóknar, segist telja að efna þurfi til þjóðarátaks í málefnum aldraðra „og ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að Íslendingar þurfi að senda skýrari skilaboð um hvernig þeir meti störf umönnunarstétta. Ég tel að flestir séu þeirrar skoðunar að hækka beri laun þessara hópa, en kalla um leið eftir ábyrgð þeirra sem tilheyra hærri launahópum svo þeir komi ekki allir í fram haldinu og biðji um annað eins og jafnvel meira.“

Sjá nánar í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

mbl.is