Björgvin segir af sér og stjórnendur Fjármálaeftirlitsins hætta

Björgvin G. Sigurðsson tilkynnir um afsögn sína á blaðamannafundi í …
Björgvin G. Sigurðsson tilkynnir um afsögn sína á blaðamannafundi í viðskiptaráðuneytinu í morgun. mbl.is/Golli

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra hefur sagt af sér. Hann tilkynnti þetta rétt í þessu. Hann tilkynnti jafnframt að Jónas Fr. Jónsson forstjóri Fjármálaeftirlitsins og stjórn stofnunarinnar hætti störfum. Björgvin segist með þessu axla ábyrgð vegna bankahrunsins en segir aðspurður að mun fleiri beri ábyrgð.

Björgvin sagðist hafa tekið þessa ákvörðun í gærkvöldi og jafnframt ákveðið að stjórn og forstjóri Fjármálaeftirlitsins þyrftu að víkja. Hann tilkynnti formanni stjórnar stofnunarinnar, Jóni Sigurðssyni, í morgun að hann óskaði eftir því við stjórn Fjármálaeftirlitsins að hún gangi frá starfslokum við forstjóra eftirlitsins og í kjölfarið segði  í kjölfarið af sér. Hafi Jón ákveðið í framhaldi af því að biðjast lausnar.

Björgvin lýsti því yfir að hann sæti áfram á þingi og ætlaði að taka þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar fyrir komandi alþingiskosningar. Hann sagðist enga afstöðu taka til þess hvort núverandi ríkisstjórn ætti að vera við völd fram að kosningum; það yrðu formenn stjórnarflokkanna að meta.

Björgvin sagði að enginn hefði þrýst á hann um afsögn og ekki hefði verið rætt um það úti í samfélaginu undanfarnar vikur. Hann sagðist ekki hafa rætt málið við formenn stjórnarflokkanna fyrr en í morgun en hann sendi Geir H. Haarde, forsætisráðherra, bréf þar sem hann baðst lausnar. Björgvin sagðist hafa tekið ákvörðun sína einn í gærkvöldi til að höggva á þann hnút, sem væri orðinn og vildi að pólitískur friður skapist í landinu til að endurreisa íslenskt samfélag.

Björgvin sagðist aldrei hafa verið í vafa um að hann bæri hluta af hinni pólitísku ábyrgð á bankahruninu og því að ekki hefði tekist að skapa traust um uppbyggingarstarfið og hann hefði ávallt ætlað að axla hana. „Ég hef aldrei verið í vafa um að ég ber hluta af hinni pólitísku ábyrgð og hef alltaf ætla að axla hana.“ Sagðist hann hafa trúað því lengi framanaf að ríkisstjórnin myndi vinna traust almennings í endurreisnarstarfinu en það hefði mistekist. Reiði fólks, vantrúin og rof á milli þjóðar og stjórnvalda væri svo djúpstæð. „Það verður aldrei unnið til baka nema það verði breytingar í lykistofnunum," sagði Björgvin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert