„Þetta var góður fundur“

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. Mbl.is/ Kristinn

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, segir fund sem hann átti með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, og Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, hafa verið góðan. Allt bendi til þess að mikilvæg mál er varða heimilin í landinu verði samþykkt hratt og vel á næstunni.

„Við áttum ágætan fund þar sem við fórum yfir stöðu mála, og þá sérstaklega mál er varða heimili og fyrirtækin í landinu. Þau eru auðvitað fjölmörg og nú þegar hafa tugir mála verið afgreidd út úr ríkisstjórn sem þurfa að ná alla leið í gegnum þingið. Til dæmis um útgreiðslu séreignasparnaðar, það er hluta hans, til þeirra sem það kjósa,“ sagði Steingrímur J. í samtali við mbl.is að loknum fundinum.

Hann sagði engar alvarlegar deilur vera uppi um hvernig skyldi halda á málum. Hins vegar vildu allir flýta málum sem allra mest, og að því væri unnið ötullega. „Það er ekki undarlegt að menn hafi litla þolinmæði en það er nú samt þannig, að það er mikil hreyfing á málum,“ sagði Steingrímur J..

Ekki hefur náðst í Sigmund Davíð eftir að fundi lauk, en hann þurfti að fara fyrr af fundinum en reiknað hafi verið með.

mbl.is