Ekkert umboð til að breyta þjóðfélaginu

Bjarni Benediktsson, Árni Páll Árnason og Þorvaldur Gylfason, vaktstjóri Lýðræðisvaktarinnar.
Bjarni Benediktsson, Árni Páll Árnason og Þorvaldur Gylfason, vaktstjóri Lýðræðisvaktarinnar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Lýðræðislegt umboð þeirra til þess að breyta þjóðfélaginu er nákvæmlega ekki neitt.“ Þetta er haft eftir Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar, á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC í dag en hann vísar þar til Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Ennfremur segir í fréttinni að hann hafi ekki viljað viðurkenna að niðurstaða kosninganna væri traustyfirlýsing í garð flokkanna tveggja.

Fjallað er um helstu staðreyndir varðandi niðurstöður kosninganna og meðal annars að bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafi efasemdir um Evrópusamrunann og að árangur þeirra í kosningunum kunni að hægja á inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Efasemdarmenn telji Ísland þegar njóta helstu kosta þess að vera aðili að sambandinu í gegnum fríverslun og Schengen-samstarfið.

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið kallaður aftur til starfa,“ er haft eftir Bjarna Benediktssyni, formanni flokksins. „Við höfum orðið vitni að því hvaða áhrif niðurskurður hefur haft á heilbrigðiskerfið og félagslegar bætur. Nú er tími kominn fyrir nýjar fjárfestingar, atvinnusköpun og hagvöxt.“

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert