Píratar mælast stærstir

Fylgi stjórnmálaflokkanna samkvæmt könnun sem Félagsvísindastofnun HÍ gerði fyrir Morgunblaðið ...
Fylgi stjórnmálaflokkanna samkvæmt könnun sem Félagsvísindastofnun HÍ gerði fyrir Morgunblaðið 14. til 19. október.

Mikil hreyfing er á fylgi flokkanna á milli vikna og sömuleiðis á því hlutfalli kjósenda sem taka afstöðu. Þetta sýnir könnun sem Félagsvísindastofnun HÍ gerði fyrir Morgunblaðið dagana 14. til 19. október.

Píratar mælast með mest fylgi, 22,6%, og fengju 15 þingmenn yrði gengið til kosninga nú. Sjálfstæðisflokkur mælist með næstmest fylgi, 21,1% og 15 þingmenn, og Vinstri græn mælast með 18,6% og 13 þingmenn.

9,1% segjast ætla að kjósa Framsóknarflokkinn, sem er sama hlutfall og í síðustu könnun og fengi flokkurinn sex þingmenn. 8,8% ætla að kjósa Viðreisn, um fjórðungi færri en í síðustu tveimur könnunum og samkvæmt þessu fengi flokkurinn sex þingmenn kjörna.

6,5% ætla að kjósa Samfylkinguna sem fengi fjóra þingmenn og Björt framtíð mælist með 6% og fjóra þingmenn. Flokkur fólksins mælist með 3,8%, en næði ekki inn manni. Fylgi annarra flokka mælist minna, að því er fram kemur í umfjöllun um könnun þessa í Morgunblaðinu í dag.