Vilja styðja minnihlutastjórn

Fulltrúar Pírata ræða við fjölmiðlamenn eftir fund sinn með forseta …
Fulltrúar Pírata ræða við fjölmiðlamenn eftir fund sinn með forseta Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Píratar hafa sett fram þá tillögu að mynduð verði minnihlutastjórn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sem studd verði af Pírötum og Samfylkingunni. Þessi tillaga var samþykkt á fyrsta þingflokksfundi Pírata í gær og kynntu þau Birgitta Jónsdóttir, Einar Aðalsteinn Brynjólfsson og Smári McCarthy, þingmenn flokksins, hana fyrir Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, á fundi með forsetanum í dag.

„Við höfum lagt til, ef það myndi hjálpa til, að við værum tilbúin til þess að styðja minnihlutastjórn sem gæti þá verið sett þannig upp að það væri Viðreisn, Björt framtíð og Vinstri-græn og við og Samfylkingin stutt hana án þess að eiga ráðherrasæti,“ sagði Birgitta. Sagði hún aðspurð mikilvægt að reyna að hafa fyrirkomulagið einfalt. „Það er flókið ef það sitja formenn úr fimm flokkum við ríkisstjórnarborðið.“

Smári sagðist aðspurður ekki líta svo á að ábyrgðarfælni fælist í því að vilja ekki taka sæti í fimm flokka ríkisstjórn. „Það mun vera erfitt að búa til meirihlutastjórn,“ sagði hann. Píratar væru reiðubúnir að setjast í ríkisstjórn ef það reyndist betri kostur en minnihlutastjórn en mestu skipti að það myndaðist góð og sterk stjórn sem væri trúverðug og hefði möguleika á að byggja upp traust í samfélaginu. Ekki væri aðalatriðið hvort Píratar kæmu að henni eða ekki. Markmiðið væri að minnka „flækjustigið“ í stjórnarmyndunarviðræðum.

Fulltrúar Pírata ræða við fjölmiðlamenn eftir fundinn.
Fulltrúar Pírata ræða við fjölmiðlamenn eftir fundinn. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert