Krefjast sætis fyrir Sigmund

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. samsett mynd/mbl.is

„Ég get staðfest að það eru ákveðnir aðilar sem stíga fram um leið og skoðanir eru viðraðar meðal flokksmanna sem falla þeim ekki í geð. Það er talað út á við um að allt sé í góðum málum innan flokksins. En staðreyndin er sú að flokkurinn er gersamlega klofinn.“

Þetta segir Sveinn Hjörtur Guðfinnsson, formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur, sem er fjölmennasta framsóknarfélagið á landinu.

„Nú er staðan sú að fólk er orðið hrætt að tjá sig. Jafnvel að líka við stöðuuppfærslur á Facebook sem ekki þykja þóknanlegar getur þýtt að fólk fær símtal frá einhverjum af trúnaðarmönnum flokksins sem segir því til syndanna. Þetta hef ég fundið á eigin skinni. Ég hef aldrei orðið var við viðlíka foringjadýrkun í flokknum og undanfarið,“ segir Sveinn Hjörtur. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir hann að djúpt virðist vera á sáttum meðal fylkinga innan flokksins.

Í frétt Morgunblaðsins á laugardag kom fram að hvatt hafi verið til þess að nafn Sigmundar Davíðs yrði strikað út.

„Ég get staðfest að það er fótur fyrir því að fólk var hvatt til að strika út nafn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á kjörseðlinum,“ segir Anna Kolbrún Árnadóttir, formaður Landssambands framsóknarkvenna.

Nafn Sigmundar Davíðs var strikað út 817 sinnum, en það eru 18% þeirra atkvæða sem greidd voru Framsóknarflokknum í Norðausturkjördæmi. Í yfirlýsingu sem hann sendi samflokksmönnum í kjördæmi sínu segir hann að hópur manna hafi hvatt til útstrikana.

Anna Kolbrún segir það einkenna andrúmsloftið í flokknum að ekki sé um frjáls skoðanaskipti að ræða og skoðanakúgunar gæti.

„Það er mjög áberandi að fólk í hópi stuðningsmanna Sigmundar Davíðs, sem reynir að tjá sig, er kveðið í kútinn samstundis af samflokksmönnum, því þeim finnst greinilega skoðanirnar ekki vera réttar.“

 Völdunum rænt

„Ég er á því að völdum í flokknum hafi verið rænt. Það voru ekki nema 40 atkvæði sem skildu Sigmund Davíð og Sigurð Inga að og þarna mætti fólk og tók þátt í atkvæðagreiðslunni sem ég hef ekki séð um langan tíma í flokksstarfinu. Það eru engar sættir á leiðinni meðal flokksmanna. Ég mun því íhuga mína stöðu.

Ég veit að formaður og varaformaður flokksins gera allt sem þeir geta til að komast í ríkisstjórn en það er mín persónulega skoðun að við eigum ekki að gera það.“

Páll Marís Pálsson, formaður Sambands ungra framsóknarmanna, segist ekki hafa trú á að staðið hafi verið kerfisbundið að því að strika út nafn Sigmundar.

Heimildir Morgunblaðsins herma að á meðal þessara þinggesta hafi verið gamlir heiðursfélagar í flokknum og þar með sjálfkjörnir til þingsins sem ekki hafi mætt um langa hríð.

„Nú er tími til kominn að stinga á þessu kýli. Við höfum leitað sátta en árangurslaust. Sú manneskja sem getur sætt þessi andstæðu öfl í flokknum er Lilja Alfreðsdóttir. Hún nýtur mikils trausts úr báðum fylkingum. En það er hins vegar krafa okkar, stuðningsmanna Sigmundar Davíðs, að ætli Framsóknarflokkurinn í ríkisstjórnarsamstarf er eina leiðin til sátta að Sigmundur Davíð verði ráðherra,“ segir Sveinn Hjörtur.

Ekki náðist í þau Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins, né Lilju Alfreðsdóttur varaformann við vinnslu fréttarinnar í gær.

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur.
Sveinn Hjörtur Guðfinnsson formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur. AÐSEND MYND
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert