Katrín nýtur stuðnings flestra

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flestir vilja sjá Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna, sem næsta forsætisráðherra Íslands, samkvæmt skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar sem gerð var fyrir Morgunblaðið dagana 19.-21. september.

46% þeirra sem tóku afstöðu sögðust vilja að Katrín yrði forsætisráðherra eftir alþingiskosningarnar 28. október næstkomandi, að því er fram kemur í umfjöllun um þetta efni í Morgunblaðinu í dag.

Spurt var: Hvern af eftirtöldum vildir þú helst sjá sem forsætisráðherra eftir að kosið verður 28. október næstkomandi: Sigurð Inga Jóhannsson, Bjarna Benediktsson eða Katrínu Jakobsdóttur?

Katrín nýtur stuðnings flestra.
Katrín nýtur stuðnings flestra.

Flestir vilja sjá Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna, sem næsta forsætisráðherra Íslands, samkvæmt skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar sem gerð var fyrir Morgunblaðið dagana 19.-21. september. 46% þeirra sem tóku afstöðu sögðust vilja að Katrín yrði forsætisráðherra eftir alþingiskosningarnar 28. október næstkomandi.

Spurt var: Hvern af eftirtöldum vildir þú helst sjá sem forsætisráðherra eftir að kosið verður 28. október næstkomandi: Sigurð Inga Jóhannsson, Bjarna Benediktsson eða Katrínu Jakobsdóttur?

Einnig var spurt í könnuninni: En hver telur þú að sé líklegastur til að gegna embættinu?

24% þeirra sem tóku afstöðu sögðust vilja að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, yrði forsætisráðherra eftir komandi kosningar. 10% vilja sjá Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins, taka við keflinu. 20% þátttakenda í könnuninni sem tóku afstöðu vilja sjá einhvern annan en þau þrjú í stóli forsætisráðherra.

Nærri helmingur þeirra sem tóku afstöðu, eða 48%, taldi líklegast að Katrín Jakobsdóttir yrði forsætisráðherra eftir kosningar. 35% töldu líklegast að Bjarni Benediktsson yrði forsætisráðherra og 6% að það kæmi í hlut Sigurðar Inga Jóhannssonar. 8% töldu líklegast að það yrði einhver annar en Katrín, Bjarni eða Sigurður og 2% aðspurðra í könnuninni neituðu að gefa upp afstöðu sína.

 Nýtur meiri stuðnings kvenna

Þegar rýnt er í tölurnar kemur í ljós að Katrín Jakobsdóttir nýtur meiri stuðnings kvenna en karla, 59% kvenna vilja sjá hana sem forsætisráðherra en 34% karla. Bjarni Benediktsson sækir hins vegar meira fylgi til karla, 29%, á móti 18% til kvenna.

Katrín höfðar meira til yngri kynslóðarinnar, samkvæmt könnuninni. 54% fólks á aldrinum 18-29 ára vilja hana sem forsætisráðherra og 55% fólks á aldrinum 30-44 ára. Þegar komið er upp í aldurshópinn 45-59 ára nefna 42% Katrínu sem forsætisráðherra og 38% fólks yfir sextugu.

Þessu er öfugt farið með Bjarna Benediktsson. 17% fólks í tveimur yngstu hópunum vilja að hann verði forsætisráðherra. Í aldurshópnum 45-59 ára vilja 26% að hann verði forsætisráðherra og 30% fólks yfir sextugu.

Bæði Bjarni og Katrín njóta meira fylgis meðal fólks á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. 25% íbúa á höfuðborgarsvæðinu vilja Bjarna sem forsætisráðherra á móti 22% á landsbyggðinni. 48% íbúa á höfuðborgarsvæðinu vilja sjá Katrínu á móti 41% íbúa landsbyggðarinnar. Sigurður Ingi nýtur aftur á móti aðeins stuðnings 7% fólks á höfuðborgarsvæðinu en 17% íbúa landsbyggðarinnar.

Könnunin var bæði síma- og netkönnun. Tvö þúsund manns voru í úrtakinu og fjöldi svarenda 908. Þátttökuhlutfall var 46%.

 Margir hafa þegar kosið

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar vegna alþingiskosninganna hófst á miðvikudaginn í síðustu viku. Kosningin fer fram á skrifstofum sýslumanna um land allt.

„Þetta hefur farið mjög vel af stað. Ef ég man þetta rétt höfðu 134 kosið fyrstu þrjá dagana, þ.e. miðvikudag til föstudag. Á sama tíma í fyrra höfðu 78 kosið. Það er töluverður áhugi til að byrja með,“ segir Þórólfur Halldórsson, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu.

„Það er athyglisvert að þetta hefur farið miklu hraðar af stað núna þó þetta séu ekki háar tölur í sjálfu sér. Það er enn langt í kosningar,“ segir Þórólfur.

Á höfuðborgarsvæðinu er fyrst um sinn hægt að kjósa á skrifstofu sýslumanns að Hlíðasmára 1 í Kópavogi. Síðar verður atkvæðagreiðslan á höfuðborgarsvæðinu flutt á annan stað, enda margfaldast aðsóknin eftir því sem nær kosningum dregur.

„Venjulega höfum við opnað á nýjum stað tveimur vikum fyrir kosningar en nú verða þetta að minnsta kosti þrjár vikur.“

Perlan hefur nú fengið nýtt hlutverk og því þarf að finna atkvæðagreiðslunni nýjan stað. Þórólfur vill ekki gefa upp hvar atkvæðagreiðslan verður. Hann kveðst vonast til að geta gengið frá því í dag.

„Það verður í námunda við skrifstofuna okkar í Kópavogi. Það er eins miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu og unnt er.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »