Wembanyama nýliði ársins

Victor Wembanyama er nýliði ársins í NBA.
Victor Wembanyama er nýliði ársins í NBA. AFP/JUSTIN FORD

Franska undrabarnið Victor Wembanyama, leikmaður San Antonio Spurs, var valinn nýliði ársins í NBA-deildinni. Wembanyama fékk fullt hús stiga í kjörinu.

Ekki hefur leikmanns verið beðið með jafn mikilli eftirvæntingu síðan Lebron James kom inn í NBA-deildina sem nýliði. Myndbönd af Wembanyama og hans ótrúlegu líkamsburðum og færni lofuðu góðu löngu áður en hann spilaði sinn fyrsta NBA-leik. 

Wembanyama varð tvítugur í janúar en hefur þrátt fyrir ungan aldur verið einn besti varnarmaður NBA-deildarinnar á þessu tímabili. Frakkinn er 224 sentimetrar á hæð en hefur afburða hreyfifærni miðað við hæð.

Victor Wembanyama ver skot Nikola Jokic í leik Denver og …
Victor Wembanyama ver skot Nikola Jokic í leik Denver og San Antonio í vetur. AFP/RONALD CORTES

Ofan á það getur drengurinn skotið, dripplað og sent boltann en í 71 leik á tímabilinu var hann að meðaltali með 21.4 stig, 10.6 fráköst, 3.9 stoðsendingar, 3.6 varin skot og 1.2 stolna bolta. Síðasti leikmaður sem afrekaði álíka tölfræði var Shaquille O'Neal þegar hann var valinn besti leikmaður deildarinnar eftir tímabilið 1999-2000.

Wembanyama er þriðji leikmaður San Antonio sem hlýtur nafnbótina, hinir tveir voru David Robinson og Tim Duncan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert