Lánsamir og lánlausir flokkar

Mánuður er í Alþingiskosningar.
Mánuður er í Alþingiskosningar. mbl.is/Styrmir Kári

Nokkrir stjórnmálaflokkar munu fjár­magna kosn­inga­bar­átt­una framund­an með lán­töku. Flokkarnir vinna nú hörðum höndum að því að skipuleggja kosningabaráttuna enda mánuður til stefnu. Margir flokka vinna að fjáröflun og kostnaðaráætlun þessa dagana og því liggur ekki endanlega fyrir hvort þeir muni þurfa að taka lán.  

Framsóknarflokkurinn mun þurfa að taka lán fyrir kosningabaráttunni. Sömu sögu er að segja með Vinstri græna en Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins, greindi frá því í viðtali á útvarpsstöðinni K100 í gærEkki liggur fyrir hversu hátt lán Framsóknarflokkurinn mun þurfa að taka en unnið er að kostnaðaráætlun fyrir kosningabaráttuna, að sögn Einars Gunnars Einarssonar, framkvæmdastjóra flokksins.   

Sjálfstæðisflokkurinn tekur líklega lán

„Það á eftir að koma endanlega í ljós og ekki ólíklegt að svo fari,” segir Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, spurður hvort flokkurinn muni taka lán. Hann segir meiri líkur á því en minni. „Við erum komin of skammt í kosningabaráttunni til að geta sagt endanlega til um það. Við erum rétt að byrja að hanna kosningabaráttuna,” segir Þórður og bætir við að einungis ár sé liðið frá síðustu kosningum og fæstir hefðu búið sig undir þessa stöðu. Ekki liggur fyrir kostnaðaráætlun fyrir kosningarnar.

„Við erum í fjáröflun og að vinna að kostnaðaráætlun fyrir kosningabaráttuna,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðreisnar. Endanleg ákvörðun liggur ekki fyrir hvort flokkurinn muni þurfa að taka lán. „Það getur vel verið að við þurfum að taka eitthvert lán til að brúa bilið,” segir Birna.  

Björt framtíð tók lán nýlega fyrir rekstrinum

„Við tókum nýlega lán fyrir rekstrinum fram að áramótum sem mun nýtast í kosningabaráttuna,“ segir Valgerður Björk Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Bjartrar framtíðar. Það lán var lægra en 10 milljónir króna. Flokkurinn vinnur nú að kostnaðaráætlun og fjáröflun þar sem leitað verður eftir styrkjum frá einstaklingar en ekki verður tekið við styrkjum frá fyrirtækjum. „Við reynum að eyða sem minnstu í þessu kosningabaráttu eflaust eins og aðrir flokkar,“ segir Valgerður.

Píratar erum ekki búnir að taka lán og ætla að reyna að komast hjá því í lengstu lög. „Okkur finnst aðrir flokkar bruðla of mikið í þetta. Persónulega finnst mér að kosningabaráttan ætti að snúast meira um að tala við fólk en að eyða í auglýsingar,” segir Snæbjörn Brynjarsson, formaður framkvæmdaráðs Pírata.

Kostnaðaráætlun Pírata liggur fyrir og reiknað er með að um 10 milljónir fari í kosningabaráttuna, að sögn Snæbjörns. 

Samfylkingin tekur ekki lán

„Við ætlum ekki að taka lán,“ segir Margrét Lind Ólafsdóttir, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Flokkurinn vinnur að gerð kostnaðaráætlunar. „Við eigum ekki digra sjóði en erum að fara í átak að safna fé frá félagsmönnun. Við reiknum með að fá 10 til 14 milljónir út úr því,“ segir Margrét Lind.

mbl.is

Bloggað um fréttina