Mikið fylgi VG merkilega stöðugt

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - ...
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - grænt framboð. Samsett mynd

„Miðað við þetta virðist leiðin, að minnsta kosti ekki ennþá, liggja upp á við fyrir Sjálfstæðisflokkinn,“ segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, vegna nýrrar skoðanakönnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir Morgunblaðið sem birt er í blaðinu dag. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 20,7% í könnuninni en fékk 29% í þingkosningunum sem fram fóru fyrir ári síðan.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins var 24,3% í skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar sem birt var fyrir viku síðan. Grétar segir að ekki sé þó hægt að útiloka að flokkurinn gæti bætt við sig á lokametrunum eins og hafi gerst fyrir ári síðan. Hins vegar sé spurning hvaða áhrif fréttir gærdagsins, um sölu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, á eign sinni í Sjóði 9 sem var í vörslu Glitnis rétt fyrir fall bankans muni hafa.

Grétar Þór Eyþórsson stjórnmálafræðiprófessor.
Grétar Þór Eyþórsson stjórnmálafræðiprófessor. Ljósmynd/Auðunn Níelsson

„Ég held að þær fréttir séu allavega ekki til þess fallnar að hjálpa Sjálfstæðisflokknum. Það kann að vera að það lækki frekar í kjölfar þessara frétta. Þá ekki síst til viðbótar við fyrri mál sem komið hafa upp og verið óþægileg fyrir Bjarna og flokkinn,“ segir Grétar. Ekki sé víst að það gangi eins vel núna og fyrir síðustu kosningar að tala fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn sé ávísun á stöðugleika og traust gegn óvissu sem fylgdi Pírötum.

Turnarnir núna samkvæmt skoðanakönnunum væru Sjálfstæðisflokkurinn og VG. Fyrir ári hafi kannanir bent til þess að annað hvort Sjálfstæðisflokkurinn eða Píratar yrðu stærsti flokkurinn. Ekki væri víst að þessi málflutningur virkaði eins vel gegn VG sem væri ekki nýr flokkur. Fólk þekkti VG og vissi fyrir hvað flokkurinn stæði. Það væri frekar að fólk væri ósammála áherslum VG en að það teldi einhverja mikla óvissu fylgja honum.

Framsókn í fallhættu en gæti bætt við sig fylgi

VG virtist annars ætla að halda í kringum 28% fylgi miðað við kannanir Félagsvísindastofnunar. Enn væru þó þrjár vikur til kosninga og margt gæti gerst en fylgið væri enn sem komið er merkilega stöðugt miðað við þessar kannanir. Píratar væru hins vegar að tapa fylgi miðað við kjörfylgi með rúm 9% miðað við 14,5% í kosningunum. „Svo ekki sé talað um ef miðað er við fylgið sem þeir voru að mælast lengi með á síðasta kjörtímabili.“

Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar væri að koma sterkt út í könnuninni með 9,5% sem væri á svipuðum slóðum og í fleiri könnunum að undanförnu. Miðflokksmenn gætu vel við unað og spurning hvort flokkurinn ætti eftir að bæta frekar við sig eða ekki. Flokkur fólksins með 9% væri á svipuðum slóðum og flokkurinn hefði verið að mælast. Framsókn væri hins vegar að tapa miklu fylgi með 5,5% sem þýddi fallhættu.

„Framsókn gæti auðvitað átt eftir að hækka á lokametrunum eins og flokkurinn hefur oft gert rétt fyrir kosningar. Væntanlega er fylgið aðallega að fara yfir á Miðflokkinn. Framsókn er þarna rétt yfir 5% þröskuldinum sem þarf til þess að fá þingmenn kjörna,“ segir Grétar Þór. Hvað Viðreisn og Bjarta framtíð varðar, sem eru með annars vegar 3,1% og 2,7% samkvæmt könnuninni, virðist ólíklegt að flokkarnir tveir nái sér á strik.

„Þetta er auðvitað ekki góð útkoma fyrir Viðreisn og Bjarta framtíð og veldur væntanlega áhyggjum í herbúðum þeirra. Fleiri kannanir hafa sýnt flokkana fyrir neðan 5%,“ segir hann. Það eigi kannski ekki síst við um Viðreisn sem hafi fengið góða kosningu fyrir ári í fyrsta sinn sem flokkurinn hafi verið í framboði með 10,5%. Margir hafi hins vegar lengi vel talið að Björt framtíð kæmist ekki inn á þing síðast miðað við skoðanakannanir.

mbl.is

Bloggað um fréttina