Ekkert verður af prófkjöri í Vestmannaeyjum

Fulltrúaráð flokksins felldi í kvöld tillögu um prófkjör.
Fulltrúaráð flokksins felldi í kvöld tillögu um prófkjör. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Á fundi fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum var tillaga um prófkjör felld og ákveðið var að fara í röðun á lista, líkt og verður gert á Akureyri. Samkvæmt heimildum mbl.is sögðu 40 já við þessari tillögu og 13 nei. Fulltrúaráðið hafði áður á fundi sínum milli jóla og nýárs ákveðið að farin yrði prófkjörsleið í bænum, í fyrsta skipti frá árinu 1990.

Á fundinum í kvöld lagði stjórn fulltrúaráðsins fyrst fram tillögu um prófkjör sem var þess eðlis að kosið yrði um sjö efstu sæti á lista, það yrðu að lágmarki fjórtán frambjóðendur, og að prófkjör yrði haldið fyrir janúarlok. 26 sögðu já og 28 nei, en kosningin var leynileg.

Elís Jónsson, sem hafði gefið út að hann hygðist gefa kost á sér í prófkjöri flokksins, var einn þeirra sem gerði athugasemd við tímarammann í tillögu stjórnarinnar. „Ég lagði fram skriflega breytingartillögu um að við myndum hafa prófkjör um efstu fimm sætin, að það yrðu að lágmarki tíu frambjóðendur og að prófkjör færi fram fyrir lok febrúar. Þetta er meira normið eins og verið er að gera,“ segir Elís sem búinn er að kynna sér ítarlega prófkjör flokksins sem haldin hafa verið síðustu ár. Hann gerði grein fyrir þeirri vinnu á fundinum. „Tímaramminn gengur ekki upp í tillögu þeirra.“ 20 samþykktu tillögu Elísar en 27 voru á móti.

Að hans sögn steig steig Elliði Vignisson bæjarstjóri í pontu í kjölfarið og sagði að aðrar tillögur væru í boði, líkt og leiðtogaprófkjör, kosning á lista og fleira. Þá var Elís hins vegar nóg boðið. „Við það gekk ég bara út, maður tekur ekki þátt í svona lýðskrumi,“ segir Elís sem er mjög ósáttur við niðurstöðuna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert