Kaffitíminn er heilagur hjá körlunum

Vilhelm Sverrisson, Hallgrímur Guðmundsson, Jóhann S. Gunnarsson, Hannes Gíslason, Steindór …
Vilhelm Sverrisson, Hallgrímur Guðmundsson, Jóhann S. Gunnarsson, Hannes Gíslason, Steindór V. Guðjónsson og Birgir Þór Ólafsson í skúrnum. mbl.is/Eggert

„Við fengum þetta húsnæði fyrir um tveim vikum síðan og þeir hafa verið duglegir við að setja upp veggi og undirbúa allt,“ segir Hörður Sturluson, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum í Hafnarfirði.

Eins og Morgunblaðið hefur áður greint frá var í byrjun árs sett á fót verkefnið Karlar í skúrum. Það er að erlendri fyrirmynd og snýst um að veita eldri mönnum tækifæri til að sinna hugðarefnum sínum og um leið að koma í veg fyrir félagslega einangrun. Fjórtán karlar eru skráðir til leiks og hafa beðið eftir hentugu húsnæði síðan í byrjun árs. Nú hafa þeir fengið inni að Helluhrauni 8.

Þegar Morgunblaðið heilsaði upp á karlana í vikunni lá vel á þeim. Þeir sögðu stefnuna vera að menn gætu sinnt listmálun, hnífasmíði, skartgripasmíði, tálgun og ljósmyndun í „skúrnum“ en reynt sé að skapa aðstæður fyrir allar hugmyndir. Félagslegi þátturinn vegur þungt og þeir sögðu einróma að kaffitíminn og spjallið í honum væri ekki síst ástæða þess að þeir létu sjá sig. „Kaffitíminn er heilagur,“ sagði einn karlanna ákveðinn.

Allir karlar eru velkomnir meðan húsrúm leyfir en hægt er að kynna sér starfsemina á heimasíðunni Karlariskurum.com eða senda línu á hordur@redcross.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert