„Ég er alveg róleg“

Vigdís tók hvíldardag í gær en Miðflokkurinn ætlar að hittast …
Vigdís tók hvíldardag í gær en Miðflokkurinn ætlar að hittast í dag og fara yfir stöðuna. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég held að það hafi allir hvílt sig í gær, þetta var búin að vera löng kosningabarátta. Ég persónulega fór út að borða með börnunum mínum af því dóttir mín var að útskrifast á laugardaginn. Ég tók eiginlega bara hvíldardag, en nú er kominn mánudagur og þá þarf að vinna úr stöðunni,“ segir Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í Reykjavík, en flokkurinn fékk 6,1 prósent atkvæða og einn borgarfulltrúa. „Nú fer þetta að fara af stað allt saman,“ bætir hún við en Miðflokkurinn ætlar að hittast í dag. „Við ætlum að fara yfir stöðuna og það hvernig við sjáum þetta fyrir okkur í framtíðinni.“

Vigdís segir miklar þreifingar hafa átt sér stað í aðdraganda kosninganna sem og í Silfrinu í gær þar sem hún var mjög afdráttarlaus í sínum skoðunum. Sagði Vigdís Sjálfstæðisflokkinn vera skýran sigurvegara kosninganna í Reykjavík, hann væri stærsti flokkurinn og því eðlilegt að hann leiddi nýjan meirihluta, með að komu Miðflokksins og fleiri flokka. „Samkvæmt lýðræðinu og úrslitum kosninga þá tel ég að Sjálfstæðisflokkurinn sé í oddaaðstöðu til að hefja einhverjar þreifingar á sama tíma og meirihlutanum var hafnað.“

Vigdís segist hafa rætt við Eyþór Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins, eftir Silfrið á RÚV í gær en oddvitar allra flokka sem fengu kjörinn fulltrúa voru þar gestir. „Við ræddum þar um ákveðna hluti. Ég er alveg róleg,“ segir hún en gerir ráð fyrir að málin taki að skýrast þegar líður á daginn. Ákveðnir flokkar hafi þó málað sig út í horn.

„Mér finnst miður og bæði fyrir og eftir kosningar séu kjörnir fulltrúar að útiloka aðra. Við þurfum að vinna öll saman í fjögur ár, það er ekki hægt að kjósa upp á nýtt, eins og til Alþingis. Það þrengir stöðuna svolítið og þessir aðilar voru að dæma sjálfa sig úr leik, má segja,“ segir Vigdís, en Samfylkingin, Píratar og Sósíalistaflokkurinn hafa gefið út að þeir ætli sér ekki að vinna með Sjálfstæðisflokknum. Vigdís segir Samfylkinguna og Vinstri græn einnig hafa útilokað Miðflokkinn í kosningabaráttunni. „Staðan er svona og ég reikna nú kannski ekki með því að heyra frá þessum aðilum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert