Guðrún Hafsteinsdóttir vill oddvitasæti sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi

Guðrún Hafsteinsdóttir.
Guðrún Hafsteinsdóttir. Haraldur Jónasson/Hari

Guðrún Hafsteinsdóttir hefur ákveðið að gefa kost á sér í 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Þetta tilkynnti hún á aðalfundi Sjálfstæðisfélagsins í Hveragerði fyrr í kvöld.

Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi halda prófkjör í lok maí, en bæði Páll Magnússon, sem nú er oddviti flokksins í kjördæminu, og Vilhjálmur Árnason þingmaður sækjast einnig eftir 1 sætinu. Þar stefnir því í mikinn oddvitaslag.

Guðrún segir að hún hafi fengið mikla hvatningu hvaðanæva úr kjördæminu, hún vilji hafa áhrif á þróun samfélagsins og gefi því kost á sér. Hún segir Suðurkjördæmi búa yfir miklum tækifærum, sem brýnt sé að efla. Að því vilji hún vinna og telur reynslu sína og þekkingu nýtast vel til þess. „Í Suðurkjördæmi er iðandi og gott mannlíf og hér höfum við allt sem þarf til að vera leiðandi á öllum sviðum atvinnlífsins. Ég trúi því að saman getum við eflt atvinnugreinar okkar og bætt lífskjör okkar sem hér búum og störfum.“

Guðrún er fædd 1970, dóttir hjónanna Laufeyjar Valdimarsdóttur og Hafsteins Kristinssonar. Hún er í sambúð með Hans Kristjáni Einarssyni Hagerup gullsmið og eiga þau samtals sex börn. Hún er með B.A gráðu í mannfræði og hefur lokið diplómanámi í jafnréttisfræðum, en hefur starfað nær allan sinn starfsferil hjá fjölskyldufyrirtækinu Kjörís ehf. í Hveragerði.

Hún var formaður Samtaka iðnaðarins um sex ára skeið og hefur einnig átt sæti í stjórn Samtaka atvinnulífsins, Háskóla Reykjavíkur, Bláa Lónsins og Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.

Í tilefni af framboðinu hefur hún opnað vefinn gudrunhafsteins.is

mbl.is