Fleiri styðja ríkisstjórnina en flokka í ríkisstjón

Stjórnarráð Íslands.
Stjórnarráð Íslands. mbl.is/​Hari

Nokkuð miklu munar á stuðningi við ríkisstjórnina og samanlögðum stuðningi flokka í ríkisstjórn samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup. 

Stuðningur við ríkisstjórnina mældist 54,9 prósent en samanlag fylgi Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs mældist 46,2 prósent. 

Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur flokka með 24,2 prósent stuðning, Framsókn með 9,7 prósent stuðning og Vinstri græn með 12,3 prósent stuðning. 

Litlar hreyfingar voru á fylgi flokka á milli kannana Þjóðarpúls Gallup. 

Könnunin var gerð daganna 16. til 29. ágúst, heildarúrtaksstærð var 4.329 og þátttökuhlutfall var 53,3%. Vikmörk á fylgi við flokka eru 1,0-1,9%. 

Næstum 11 prósent tóku ekki afstöðu eða vildu ekki gefa hana upp og ríflega 7 prósent  sögðust ætla skila auðu eða ekki kjósa.

Sósíalistar hástökkvarar

Samfylkingin mældist stærst stjórnarandstöðuflokka með 11,5 prósent stuðning og Píratar þar á eftir með 10,9 prósent stuðning. Þá mælist Viðreisn með 10,6 prósent stuðning og hástökkvari á milli kannana er Sósíalistaflokkurinn sem mælist nú með 8,2 prósent stuðning. 

Miðflokkurinn hefur 7 prósent fylgi og Flokkur fólksins 4,9 prósent fylgi, sem dygði ekki til að fá kjörinn uppbótarþingmann. Ekki liggur niðurbrot á kjördæmi fyrir svo ekki er hægt að leggja mat á hvor að Flokkur fólksins fengi kjördæmakjörinn þingmann og því hvort að hann mælist inni á þingi yfir höfuð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka