Margar kynslóðir sameinast í JSB

Þórdís Schram, aðstoðarskólastjóri Danslistarskóla JSB.
Þórdís Schram, aðstoðarskólastjóri Danslistarskóla JSB. Ljósmynd/Aðsend

Danslistarskóli JSB hefur sérhæft sig í djassballettkennslu í 55 ár en skólinn var stofnaður árið 1967 af Báru Magnúsdóttur, eiganda og skólastjóra. Skólinn hefur starfað óslitið frá formlegri stofnun hans og nú stunda tæplega 500 nemendur á aldrinum 2-20 ára dansnám við skólann. Hjá JSB starfa um 20 þrautreyndir kennarar á sviði danslistar en Þórdís Schram, dóttir Báru, gegnir starfi aðstoðarskólastjóra Danslistaskólans og sem fagstjóri á listnámsbraut. 

„Ég er nú eiginlega bara fædd og uppalin í JSB,“ segir Þórdís og hlær. „Maður var þarna allan daginn með mömmu og þekkir því varla annað,“ lýsir Þórdís æskunni. 

„Ég held að það sé einsdæmi að hún sé bara þarna enn þá - 55 árum seinna,“ segir hún og hlær en Bára hefur átt farsælan feril með rekstri á JSB sem hefur vaxið og dafnað í gegnum tíðina.

Í forskóla JSB fá nemendur á aldrinum 2-5 ára kennslu …
Í forskóla JSB fá nemendur á aldrinum 2-5 ára kennslu í heðfbundu jazzballet námi. Ljósmynd/Rán Bjargar

Vandað dansnám og öflugt félagslíf

Ásamt dansskóla JSB er líkamsræktarstöð einnig starfrækt í sama húsnæði, við Lágmúla 9 í Reykjavík. Líkamsræktarstöð JSB hefur notið mikilla vinsælda á meðal kvenna á öllum aldri enda aðstaðan með besta móti og fjölbreytt úrval af námskeiðum í boði. 

„Við leggjum mikinn metnað í góða og vandaða kennslu en að dansskólanum loknum tekur ræktin í raun við. Við erum með frábæra kennara sem hafa flestir framhaldsmenntun í listdansi. Það er margvíslegur ávinningur falinn í því fyrir börn og ungmenni að taka þátt í starfi JSB. Fyrst og fremst er það að nemendur kynnast vel innbyrðis því við leggjum mikið upp úr félagslega þættinum. Okkur finnst mikilvægt að nemendur upplifi sig sem hluta af heild og myndi náin og góð tengsl,“ útskýrir Þórdís og telur öflugt félagslíf vera eitt af fjöreggjum dansnámsins.

Nemendur í skólanum sýna listir sínar á sviðum Borgarleikhússins.
Nemendur í skólanum sýna listir sínar á sviðum Borgarleikhússins. Ljósmynd/Rán Bjargar

„Mínar elstu vinkonur eru úr dansinum. Við komum allar hver úr sinni áttinni en dansinn sameinaði okkur og úr urðu dýrmæt vinasambönd sem við eigum enn þann dag í dag,“ segir hún og veit um ótalmörg vináttubönd sem hafa sprottið upp og skapast í gegnum dansnám í JSB.

„Þeir sem hafa stundað nám í JSB sammælast um það hversu sterk JSB-heildin er. Flestir koma aftur, kannski til að kenna eða með börnin sín í dansnám. Þetta er svona kynslóð eftir kynslóð,“ segir Þórdís og lítur á JSB sem eins konar samfélag.

„Við í JSB höfum alltaf litið á okkur sem eina stóra dansfjölskyldu. Hingað eru allir velkomnir, hvenær sem er.“

Aldursbil nemenda í Danslistarskóla JSB er ansi vítt, 2-20 ára, …
Aldursbil nemenda í Danslistarskóla JSB er ansi vítt, 2-20 ára, en rík áhersla er lögð á vandað og skemmtilegt dansnám í senn. Ljósmynd/Rán Bjargar

Stóra sviðið hápunkturinn

Þórdís segir dansnámið í JSB hugsað út frá aldri og hæfni en aldursbil nemenda er nokkuð breitt. Aðaláherslan er lögð á vandað nám hvort sem um forskóla, grunn- eða efsta stig sé að ræða. 

„Námið eflir sköpunargáfu og svo vita það flestir að það græða allir á því að hreyfa sig. Þetta er listtengd íþrótt þannig að nemendur læra listform, tónlist, takt og samhæfingu ásamt því að auka styrk og þrek,“ segir Þórdís og nefnir að í lok hvers misseris séu haldnar nemenda- og útskriftarsýningar í Borgarleikhúsinu sem oftar en ekki sé rúsínan í pylsuendanum í huga nemenda.

Jazzballett er listtengd íþrótt þar sem nemendur þjálfast á mörgum …
Jazzballett er listtengd íþrótt þar sem nemendur þjálfast á mörgum ólíkum sviðum. Ljósmynd/Rán Bjargar

Metið til stúdentsprófs

„Listdansbrautin okkar er kröfuharðari námsleið. Þá æfa nemendur töluvert oftar í viku heldur en í hefðbundu djassballett-námi. Nemendur æfa fleiri námsgreinar líkt og ballett, nútímadans og danssmíði,“ lýsir Þórdís en nemendum á framhaldsskólaaldri gefst kostur á að fá dansnámið metið til stúdentsprófs.

 „Dansnámið jafngildir 91 F-einingu upp í stúdentspróf samkvæmt aðalnámskrá og í samvinnu við Menntaskólann í Hamrahlíð. Það gerir töluvert fyrir þessa nemendur sem eru kannski að æfa dans í 18 klukkustundir á viku.“

 JSB á faraldsfæti

„Ég hef verið alla mína ævi í JSB og unnið mikið í listageiranum hér heima. Það kom eiginlega aldrei neitt annað til greina hjá mér,“ segir Þórdís sem fór utan á tímabili í áframhaldandi dansnám í London.

Nemendur JSB fara iðulega í námsferðir til útlanda en síðasta sumar fór 60 manna hópur á vegum skólans á danskeppnina Dance World Cup, sem er eins stærsta danskeppni í heimi.

Skólinn fer oft og iðulega erlendis í námsferðir.
Skólinn fer oft og iðulega erlendis í námsferðir. Ljósmynd/Aðsend

„Næsta sumar er fyrirhugað að nemendur á grunnstigi danslistarskólans fari í vikulanga námsferð til Leeds og nemendur á efra stigi munu fara til London í febrúar,“ segir Þórdís sem er í óða önn að skipuleggja og undirbúa ferðina.

„Þetta er mín ástríða. Ég hef dansað á stórum og litlum sviðum hér heima og erlendis, var í sirkus í mörg ár líka og hef alltaf kennt við dansskóla JSB. Það eru komin yfir 20 ár síðan ég byrjaði að kenna og er hvergi nærri hætt að miðla minni þekkingu áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert