Jörðin raular við sjálfa sig

Jarðeðlisfræðingar telja sig hafa fundið uppruna dularfulls lágtíðnisuðs sem berst frá iðrum jarðar. Þetta kemur fram í grein, sem birtist í breska vísindatímaritinu Nature á morgun.

Hljóðið hefur tíðni á milli tveggja til sjö millihertza og því nema mannleg eyru það ekki. Vísindamenn segja að það stafi greinilega af því að mikil orka losnar úr læðingi nálægt eða á yfirborði jarðar.

Það sem vafist hefur fyrir vísindamönnum er að hægt er að heyra suðið þótt engir stórir jarðskjálftar séu í gangi en slíkt er líklegasta ástæða slíkrar orkulosunar.

Þau Junkee Rhie og Barbara Romanowicz hjá Berkeley háskóla í Kalíforníu segja í greininni að suðið virðist eiga upptök í norðurhluta Kyrrahafs þegar vetur er á norðurhveli jarðar og í Suðurhöfum þegar vetur er á suðurskautinu. Gera vísindamennirnir því skóna, að suðið stafi af samspili andrúmslofts, hafs og sjávarbotns.

Vindorka á vetrum breytist í djúpsjávarbylgjur sem fara yfir hafsbotninn og valda titringi sem aftur orsakar umrætt suð, að því er vísindamennirnir telja.

mbl.is