Facebook og Google ritstýra netinu

Stórir vefir á borð við Google og Facebook stýra því hvaða upplýsingar við sjáum á netinu. Fáir gera sér grein fyrir því að einstaklingar fá mjög ólíkar niðurstöður við leitarorðum sínum á netinu. Þetta segir rithöfundurinn Eli Pariser sem staddur er hér á landi.

„Ég ætla að segja ykkur söguna af því þegar ég komst að því að ég var ekki lengur við stjórnvölinn,“ sagði Eli Pariser í opnunarræðu sinni á Reykjavík Internet Marketing Conference (RIMC) um þær breytingar sem orðið hafa á upplýsingaflæði og fjölmiðlun á tímum netsins. Í ræðu sinni, sem bar yfirskriftina Filter Bubble, lýsti Eli áhyggjum sínum yfir því hvernig nútímatækni þrengdi sjóndeildarhring fólks og benti m.a. á að leitarniðurstöðum sem birtast notendum leitarvéla væri breytt til að endurspegla þær skoðanir sem við værum líklegri til að hafa áhuga á.

Við erum föst í loftbólu og sjáum ekki lengur hvað er að gerast utan hennar útskýrði Eli og sagði að nútímatækni gerði okkur erfiðara um vik að komast út fyrir bóluna. Fólk áttaði sig ekki á því að þegar það notaði vefinn til að sækja sér upplýsingar væru þær sérstaklega sniðnar að því sem við vildum sjá og heyra.

Að mati Elis breyttist fjölmiðlun með tilkomu netsins. Á þeim tíma hafi ritstjórar fjölmiðla verið nokkurs konar hliðverðir og gegnt því hlutverki að stjórna því hvaða málefni fengju umfjöllun. Með tilkomu netsins hafi hliðin opnast og umræðunni hafi ekki verið stjórnað af fyrrgreindum hliðstjórum heldur af notendum vefjarins á lýðræðislegan hátt. Nú séu hins vegar komnir nýir hliðstjórar – forritaðar tölvur – sem þrengi sjóndeildarhring okkar og láti okkur einungis í té upplýsingar sem vitað er að við séum líkleg til að vilja sjá. 

Sjá einnig: Fyrirlestur Eli Pariser frá TED ráðstefnunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert